Innlent

Vill lengri opnun sundstaða

Snærós Sindradóttir skrifar
Laugardalslaug hefur lengstan opnunartíma sundstaða í Reykjavík en Hildur Sverrisdóttir segir íbúa borgarinnar kvarta yfir því að þar sé ekki pláss fyrir fjölskyldur vegna ferðamannastraums.
Laugardalslaug hefur lengstan opnunartíma sundstaða í Reykjavík en Hildur Sverrisdóttir segir íbúa borgarinnar kvarta yfir því að þar sé ekki pláss fyrir fjölskyldur vegna ferðamannastraums. Fréttablaðið/ernir
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram óformlega tillögu á borgarstjórnarfundi í gær þess efnis að opnunartími sundstaða yrði lengdur á ný. Tillagan kom fram við umræður um skýrslu stýrihóps um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundastarfi.

Hildur kom inn á það í ræðu sinni að ferðamönnum hefði fjölgað mikið í Reykjavík frá þeim tíma sem opnunartími sundstaða var styttur eftir efnahagshrunið 2008.

„Hvað svo sem má segja um nauðsyn þess á sínum tíma er allavega hægt að segja að opnunartímunum hafi á sínum tíma verið dreift þannig að Reykvíkingar ættu á hverjum tíma að geta farið í einhverja laug sem væri opin, sem var þá Laugardalslaugin sem er alltaf opin til klukkan 10. Nú er svo komið að við heyrum kvartanir íbúa í öllum hverfum borgarinnar yfir því að það sé ekki lengur hægt að fara með börnin í sund á kvöldin um helgar þar sem Laugardalslaugin er einfaldlega pökkuð af fólki og þá aðallega ferðamönnum,“ sagði Hildur í ræðu sinni.

Nýlega var stakt gjald í sund hjá Reykjavíkurborg hækkað í 900 krónur þó enn sé hægt að fara ódýrar í sund með fjölferða kortum. Um helgar í sumar eru laugarnar alla jafna opnar til sex á daginn, fyrir utan Laugardalslaug sem er opin til tíu á kvöldin. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×