Doom er endurgerð af hinum upprunalega Doom sem kom út árið 1993 og er frá sama fyrirtæki. Þó grafíkin hafi breyst töluvert í millitíðinni er margt við leikinn sem minnir á gamla tíma. Spilarar eru í hlutverki hermanns sem notar stórar og kraftmiklar byssur til að ganga frá djöflum og uppvakningum í massavís.
Í stað þess að hægt sé að fara í skjól og safna lífi áður en haldið er áfram þarf að finna meira líf og armor. Þá fæst líf fyrir að drepa djöfla með svokölluðum Glory Kills. Það felur í sér að skjóta djöfulinn þar til hann missir jafnvægið, hlaupa að honum og ganga frá honum á mjög ofbeldisfullan hátt. Þannig eru spilarar hvattir til að taka sénsa þegar þeir eru að dauða komnir.
Spilarar eru hvattir til þess að skoða hvern krók og kima í Doom þar sem kraftmiklar uppfærslur leynast víða og þær borga sig verulega þegar líður á leikinn. Það sem þetta gerir hins vegar er að draga úr hraða leiksins og oft á tíðum verja spilarar miklum tíma í að hlaupa um borð leiksins og leita að földum hlerum og öðrum leyndarmálum.
Það sem gerir Doom skemmtilegan er einmitt áðurnefndur hraði og hasar. Því er skringilegt að framleiðendur leiksins leggi á sig að hægja á framför spilara. Grafík leiksins er mjög flott. Spilunin er einföld, hröð og skemmtileg og það er eitthvað lúmskt skemmtilegt við hve ofbeldisfullur og blóðugur þessi leikur er.