Það eru aðeins sautján dagar í fyrsta leik Evrópumótsins og margir stuðningsmenn liðanna á mótinu farnir að undirbúa för sína til Frakklands. Það er skiljanlegt að Frakkar ætli að gera varúðaráðstafanir þegar búast má við stórum hópi fólks á svæðið allstaðar af úr álfunni.
Leikurinn hjá Englandi og Wales fer fram í Lens 16. júní næstkomandi og hefst klukkan 15.00 að staðartíma.
Borgaryfirvöld hafa nú tekið þá ákvörðun að setja á áfengisbann í kringum leikinn þennan fimmtudag. BBC segir frá. Stuðningsmenn liðanna mega ekki drekka áfengi frá sex um morguninn fram til sex á föstudagsmorguninn daginn eftir leikinn.
Þeir stuðningsmenn sem hafa ekki fengið miða á leikinn er líka ráðlagt að ferðast ekki til Lens í kringum leikinn.
Breska lögreglan hefur ráðlagt miðalausum stuðningsmönnum Englands að safnast frekar saman í Lille eða aðra borg í Frakklandi ætli þeir að horfa á leikinn saman.
1,6 milljónir beiðnir bárust UEFA frá enskum stuðningsmönnum sem vildu ná sér í miða á leiki Englendinga en aðeins 250 þúsund miðar fóru á endanum til enskra stuðningsmanna. Það er engu að síður búist við því að 350 til 500 þúsund Breta fari yfir til Frakklands á meðan mótinu stendur.
