Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, segist vera mjög spenntur fyrir enska landsliðinu sem fer á Evrópumótið í Frakklandi.
Honum líst vel á hópinn; bæði aldurinn á hópnum og andan innan hans, og telur að enska liðið geti gert flotta hluti á komandi mótum.
Scholes finnst að Wayne Rooney og Harry Kane eigi að byrja í framlínu enska liðsins og Jamie Vardy eigi að vera notaður sem varamaður sem kemur með gæði inn á völlinn.
Scholes á sjálfur að baki 66 landsleiki með Englandi en hann tók þátt í fjórum stórmótum með enska liðinu; HM 1998 og 2002 og EM 2000 og 2004.
„Ég er virkilega spenntur. Mun spenntari en fyrir síðustu þremur til fjórum stórmótum,“ segir Scholes í viðtali við Daily Mail.
„Andinn innan hópsins er frábær en á síðustu fjórum til fimm mótum hefur liðsandinn ekki verið neitt sérstakur. Leikmennirnir sem eru í liðinu núna eru tilbúnir til að læra. Þetta eru ungir leikmenn sem eru tilbúnir að hlusta á þjálfarana og liðsfélaga sína.“
„Við munum líklega ekki vinna EM en við erum ekkert langt frá því að komast í undanúrslit þegar horft er á gæðin í leikmannahópnum. Við erum með spennandi leikmenn sem geta komist í undanúrslit ef þeir finna leið til að spila saman,“ segir Paul Scholes.
