Fjögur Íslendingalið fögnuðu sigri í dag í sextán liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla og eru þar með komin áfram í átta liða úrslitin. Kvennalið Avaldsnes komst einnig áfram og það geta fleiri Íslendingalið bæst í hópinn í kvöld.
Mesta dramatíkin var hjá Hannesi Þór Halldórssyni og félögum í Bodö/Glimt sem þurftu framlengda vítakeppni til að tryggja sér sigur í úrvalsdeildarslag á móti Haugesund.
Hannes Þór, sem er markvörður íslenska landsliðsins, fékk á sig þrjú mörk í leiknum sjálfum og það var síðan skorað úr sex fyrstu vítaspyrnunum á móti honum í vítakeppninni.
Liðsfélagar Hannesar nýttu öll sín víti og Sverre Björkkjær klikkaði síðan í síðustu vítaspyrnunni á móti Hannesi. Bodö/Glimt vann vítakeppnina því 7-6 og er komið áfram í átta liða úrslitin. Þetta var fín æfing fyrir okkar mann sem gæti mögulega lent í því að taka þátt í vítakeppni með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi sem hefst í næsta mánuði.
Mathias Normann skoraði fyrsta mark leiksins á 48. mínútu og þannig var staðan þangað til að innan við tíu mínútur voru eftir. Haugesund jafnaði þá tvisvar eftir að Bodö/Glimt hafði komist aftur yfir.
Liðin skoruðu síðan bæði í framlengingunni en úrslitin réðust síðan ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni.
Thomas Lehne Olsen skoraði sigurmark Tromsö í framlengingu þegar Íslendingaliðið Tromsö sló Odd út úr norska bikarnum í kvöld eftir 3-2 heimasigur. Aron Sigurðarson leikur með Tromsö og hann lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir liðsfélaga sinn Sofien Moussa strax á 13. mínútu.
Það dugði skammt því Odd var komið yfir í 2-1 fyrir hálfleik. Aron var síðan tekinn af velli á 71. mínútu en varmanni hans, Runar Espejord, tókst að jafna metin í 2-2 á 78. mínútu. Grípa varð til framlengingar og þar kom Lehne Olsen sterkur inn.
Elías Már Ómarsson lagði upp mark fyrsta mark Vålerenga í 3-1 sigri á C-deildarliðinu Vidar en Elías Már var farinn af velli þegar Vålerenga skoraði tvö síðustu mörkin sín í leiknum.
Kristinn Jónsson og félagar í Sarpsborg 08 fóru örugglega áfram eftir 3-0 heimasigur á C-deildarliðinu Stjørdals-Blink. Kristinn lék allan leikinn í vinstri bakverðinum.
Hólmfríður Magnúsdóttir, Þórunn Helga Jóndóttir og félagar þeirra í Avaldsnes komust áfram í bikarnum í kvöld eftir 7-0 sigur á Fyllingsdalen. Íslensku stelpurnar komust ekki á blað í leiknum en norska landsliðskonan Maren Mjelde var með þrennu.
Hannes Þór fagnaði sigri í vítakeppni | Góð æfing fyrir EM
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið





Liverpool væri á sömu slóðum og Man. Utd án Mo Salah
Enski boltinn



Kári kemur inn í hópinn gegn Tyrkjum
Körfubolti

