Fótbolti

Áfall fyrir Real á lokasprettinum: Gareth Bale meiddur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Gareth Bale, velski framherjinn í röðum Real Madrid, er meiddur í hné en hann varð fyrir meiðslunum í 1-0 sigri liðsins gegn Manchester City í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

Bale fór í læknisskoðun að því fram kemur á heimasíðu Real Madrid í dag og fer hann nú í endurhæfingu til að fá sig góðan af meiðslunum sem allra fyrst.

Þetta er mikið áfall fyrir Real Madrid sem á þrjá leiki eftir á tímabilinu en þeir eru hver öðrum stærri. Liðið á tvo leiki eftir í deildinni, gegn Valencia heima um næstu helgi og Deportivo úti aðra helgi, og svo auðvitað úrslitaleik Meistaradeildarinanr 28. maí.

Búist er fastlega við að velski landsliðsmaðurinn missi af leiknum gegn Valencia um helgina og óvíst er hvort hann verði með í lokaumferðinni. Real er með 84 stig, einu stigi á eftir Barcelona og Atlético Madrid þegar sex stig eru eftir í pottinum.

Talið er líklegt að Bale verði þó klár í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok maí þar sem Real mætir Atlético, en það var Walesverjinn sem skaut Real-liðinu í úrslitin með sigurmarki gegn Manchester City á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×