Forsetinn lét þau ummæli falla í grein sem hann skrifaði í dagblaðið Daily Telegraph að áframhaldandi vera Bretlands í Evrópusambandinu magnaði áhrif Bretlands í heiminum og sagðist hann þeirrar skoðunar að Bretar ættu ekki að yfirgefa Evrópusambandið. „Þið ættuð að vera stolt af því að Evrópusambandið hafi hjálpað ykkur að dreifa breskum gildum og siðum,“ skrifaði forsetinn.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Bretland yfirgefi Evrópusambandið fer fram þann 23. júní næstkomandi og er Johnson á þeirri skoðun að Bretum sé best borgið utan sambandsins. Hann skrifaði grein í dagblaðið The Sun í gær þar sem hann svaraði forsetanum fullum hálsi.

Þá skammaðist Johnson út í þá ákvörðun að fjarlægja brjóstmynd af fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Winston Churchill, úr húsakynnum forsetans. „Sumir hafa sagt að það væri til marks um vanþóknun hálf-kenísks forseta á breska heimsveldinu sem Churchill varði af kröftum,“ skrifaði Johnson.
Ummæli Johnsons vöktu nokkra reiði meðal stjórnarandstöðunnar í landinu. Skuggafjármálaráðherrann John McDonnell sakaði Johnson til að mynda um kynþáttahatur og hvatti hann til að draga orð sín til baka.
Mögulegt brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu, sem heimamenn kalla Brexit en gæti jafnvel útlagst sem Brethvarf á íslensku, er mikið hitamál. Íhaldsflokkurinn, sem er með meirihluta þingmanna á breska þinginu, er klofinn í málinu. Þannig hefur Johnson borgarstjóri barist fyrir brotthvarfinu en forsætisráðherrann Cameron gegn því. Samkvæmt meðaltali Financial Times úr nýjustu skoðanakönnunum hallast 42 prósent Breta að því að yfirgefa sambandið en 44 prósent eru hlynnt áframhaldandi veru.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl