Körfubolti

Fagnar uppgangi uppeldisfélagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðrún Ósk, systir Sigrúnar Sjafnar, leggur boltann ofan í körfuna.
Guðrún Ósk, systir Sigrúnar Sjafnar, leggur boltann ofan í körfuna. vísir/anton
Á sama tíma og Grindavík og Haukar áttust við í Röstinni á föstudagskvöldið tryggði Skallagrímur sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í 40 ár, eftir sigur á KR. Sigrún Sjöfn Ámundadottir er uppalin hjá Skallagrími og er að sjálfsögðu ánægð að sjá félagið ná þessum merka áfanga.

„Þetta er alveg frábært hjá þeim. Ég er búin að fylgjast aðeins með þessu þar sem ég á tvær systur í liðinu. Þannig ég fæ reglulega fréttir af þessu. Það er gaman fyrir félagið að komast upp í efstu deild eftir 40 ára fjarveru,“ sagði Sigrún sem æfði með Skallagrími upp alla yngri flokka, allt þar til hún varð 16 ára.

„Þá var í raun allt búið fyrir mig og ég þurfti að fara til að geta haldið áfram,“ bætti Sigrún við en mikið púður var sett í kvennalið Skallagríms fyrir tímabilið. Systir Sigrúnar, Guðrún Ósk, sneri aftur heim eftir dvöl hjá Haukum og KR. Kristrún Sigurjónsdóttir gekk einnig til liðs við Skallagrím sem og tveir erlendir leikmenn.

Þá spilaði Sigrún tvo leiki með Skallagrími í haust, áður en hún fór til Grindavíkur. En kitlar það ekkert að taka slaginn með uppeldisfélaginu í efstu deild á næsta tímabili?

„Ég á náttúrulega leik á morgun sem ég er að einbeita mér að. Ég veit það ekki, ég er ekkert farin að hugsa út í það. Ég er með samning við Grindavík, sem er reyndar að klárast. En eins og ég sagði, þá er ég ekkert farin að spá í neitt annað en næsta leik,“ sagði Sigrún.


Tengdar fréttir

Teljum okkur geta farið alla leið

Grindavíkurkonur komu mörgum á óvart með því að komast í 2-0 gegn Haukum. Síðustu tveir leikir hafa hins vegar ekki farið vel hjá þeim gulu og þeirra bíður því oddaleikur á Ásvöllum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×