Íslendingar alast upp við frásagnir fornsagnanna af siglingum víkinga, fyrst til Grænlands og síðan til Ameríku, til lands þess sem kallað var Vínland. Víkingatóftirnar á L'ance aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands fundust árið 1960 og eru fyrsta og eina áþreifanlega sönnunin fyrir því að fólk upprunnið frá Íslandi hafi komið þangað fyrir þúsund árum.
Nú er þar rekið safn og skálarnir þar eiga að sýna hvernig búðir víkinganna litu út. Þar hafa meðal annars fundist steinar sem ættaðir eru frá vestanverðu Íslandi og eru því bein sönnun um þangað bárust hlutir frá Íslandi á tímum Vínlandsferða.

Fornleifafræðingurinn Sarah H. Parcak fann staðinn með sérstakri gervihnattatækni í samstarfi við fleiri fornleifafræðinga, þeirra á meðal Douglas Bolender, prófessor við Massachusetts-háskóla. Douglas hefur í mörg ár unnið að fornleifarannsóknum í Skagafirði, á slóðum Guðríðar Þorbjarnardóttur, eiginkonu Þorfinns Karlsefnis, sem talin er hafa fætt fyrsta evrópska barnið í Ameríku, Snorra Þorfinnsson.
Douglas Bolender segir að þessi nýi fornleifafundur geti breytt sögunni. Frumrannsókn bendir til að þarna hafi farið fram járnvinnsla en einnig hefur fundist torfveggur. Framundan eru margra ára rannsóknir á staðnum, sem afar spennandi verður fyrir Íslendinga að fylgjast með, endu gætu þær varpað skýrara ljósi á það hvar Vínland var og hversu langt Leifur heppni og félagar komust inn í Ameríku.