Fótbolti

Emil settur á bekkinn og Udinese vann sinn fyrsta sigur síðan í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Hallfreðsson og félagar fagna með Bruno Fernandes Borges eftir seinna markið hans.
Emil Hallfreðsson og félagar fagna með Bruno Fernandes Borges eftir seinna markið hans. Vísir/Getty
Udinese, lið Emil Hallfreðssonar, hjálpaði bæði sér og toppliði Juventus í dag þegar liðið vann óvæntan 3-1 sigur á Napoli.

Udinese þurfti nauðsynlega á stigum að halda ef liðið ætlaði að dragast fyrir alvöru niður í fallbaráttuna.

Bruno Fernandes skorðaði tvö mörk fyrir Udinese og Cyril Théréau gerði það þriðja. Gonzalo Higuaín skoraði mark Napoli en var síðan rekinn af velli með tvö gul spjöld í seinni hálfleiknum.

Napoli spilaði manni færra síðustu fjórtán mínútur leiksins en þá var Udinese þegar komið í 3-1.

Juventus náði sex stiga forskoti á Napoli með sigri á Empoli í gær og Udinese-liðið sá til þess að það forskot helst fram í næstu umferð.

Emil Hallfreðsson var settur út úr liðinu og sat á varamannabekknum allan tímann. Hann hefur ekki enn spilað sigurleik með Udinese síðan að hann kom til liðsins í janúar. Udinese hefur aðeins unnið tvo leiki síðan og í hinum leiknum tók Emil út leikbann.

Ganamaðurinn Emmanuel Badu kom inn á miðjuna í stöðuna hans Emils en hann er 25 ára og hefur spilað 66 landsleiki fyrir Gana.

Sigurinn í dag hjá Udinese var sá fyrsti síðan liðið vann Hellas Verona 28. febrúar en síðan hafði liðið aðeins náð í eitt stig í þremur leikjum.

Bruno Fernandes kom Udinese í 1-0 á 14. mínútu og í 2-1 á 45. mínútum en Gonzalo Higuaín minnkaði muninn á 24. mínútu. Cyril Théréau skoraði þriðja markið á 57. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×