Fótbolti

Tvö rauð spjöld á loft þegar Inter tapaði á heimavelli | Roma rúllaði yfir Lazio

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Icardi var á skotskónum í kvöld en það dugði ekki til.
Icardi var á skotskónum í kvöld en það dugði ekki til. vísir/getty
Draumur Inter um að ná Meistaradeildarsæti fjarlægist eftir 1-2 tap fyrir Torino á heimavelli í kvöld.

Inter er í 5. sæti ítölsku deildarinnar með 55 stig, átta stigum frá 3. sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Argentínumaðurinn Mauro Icardi kom Inter í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 17. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Cristian Molinaro jafnaði metin á 55. mínútu og tveimur mínútum síðar fékk Joao Miranda sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Annað rautt spjald fór á loft á 73. mínútu þegar Yuto Nagatomo braut á Andrea Belotti innan vítateigs. Belotti fór sjálfur á punktinn og skoraði framhjá vítabananum Samir Handanovic.

Níu leikmönnum Inter tókst ekki að jafna metin og Torino fagnaði því góðum sigri.

Það gekk engu betur hjá nágrönnunum í AC Milan sem töpuðu 2-1 fyrir Atalanta.

Luiz Adriano kom Milan yfir með marki úr vítaspyrnu á 5. mínútu en Mauricio Pinalla jafnaði metin mínútu fyrir hálfleik. Það var svo Alejandro Gómez sem skoraði sigurmark Atalanta á 62. mínútu.

Roma rúllaði yfir Lazio, 1-4, í Rómarslagnum. Stephan El Shaarawy, Edin Dzeko, Alessandro Florenzi og Diego Perotti skoruðu mörk Roma sem er í 3. sæti deildarinnar með 63 stig.

Úrslit dagsins:

Inter 1-2 Torino

Atalanta 2-1 Milan

Lazio 1-4 Roma

Udinese 3-1 Napoli

Genoa 4-0 Frosinone

Chievo 3-1 Palermo

Fiorentina 1-1 Sampdoria




Fleiri fréttir

Sjá meira


×