Filippo Grandi, yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, varar við því að ríki Evrópu loki landamærum sínum. Hann segir að það myndi skapa meiri glundroða, en hann átti sérstaklega við löndin á Balkanskaga.
Um átta þúsund flóttamenn sitja nú fastir í Grikklandi eftir að Makedónía bannað fólki frá Afganistan að fara yfir landamæri sín á sunnudaginn. Þar að auki var Írökum og Sýrlendingum gert erfiðara um vik að komast yfir landamærin.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni segir Grandi að það muni auka álagið á Grikklandi sem sé nú þegar allt of mikið. Engar aðrar leiðir standi fólkinu til boða.
Grandi er nú staddur á eyjunni Lesbos, sem er helsta leið flóttafólks til Evrópu. Það sem af er þessu ári hafa rúmlega hundrað þúsund manns komið til eyjunnar og þar af hafa minnst 413 farist á leiðinni.
Varar við lokun landamæra Evrópuríkja
Samúel Karl Ólason skrifar
