Aron Jóhannsson er enn frá keppni vegna meiðsla og liðsfélagar hans í Werder Bremen steinlágu 5-1 á móti Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Það voru hinsvegar Norðurlandabúar sem voru í sviðsljósinu hjá Gladbach í þessum leik.
Daninn Andreas Christensen skoraði tvö mörk í leiknum og Norðmaðurinn Håvard Nordtveit var með eitt mark. Hin mörk Gladbach-liðsins skoruðu Þjóðverjinn Lars Stindl og Brasilíumaðurinn Raffael.
Claudio Pizarro skoraði mark Werder Bremen og minnkaði muninn í 3-1 á 56. mínútu leiksins.
Werder Bremen er í þriðja neðsta sæti deildarinnar og aðeins Hoffenheim og Hannover hafa fengið færri stig. Það er ljóst að liðið þarf á Aroni að halda fyrir lokakafla tímabilsins ef ekki á illa að fara.
Borussia Mönchengladbach er í 4. sæti þýsku deildarinnar með 32 stig en liðið fór upp fyrir bæði Bayer Leverkusen og Schalke 04 með þessum sigri. Bayer Leverkusen og Schalke 04 eiga hinsvegar leik inni.

