Arnór Ingvi Traustason, leikmaður Svíþjóðarmeistara IFK Norrköping, skoraði eina mark Íslands og tryggði því sigur á Finnlandi í vináttuleik í fótbolta sem fram fór í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.
Markið skoraði Arnór Ingvi á 16. mínútu leiksins eftir glæsilegan undirbúning Hjartar Loga Valgarðssonar, en Keflvíkingurinn stakk sér inn á teiginn og afgreiddi flotta sendingu Hafnfirðingsins í netið. Báðir þessir leikmenn gera sér vonir um sæti á EM í sumar og gerðu þeir sér engan óleik í dag.
Þetta er fyrsti sigur Íslands í vináttuleik síðan liðið lagði Kanada fyrir 362 dögum síðan á Flórída, en gengi liðsins í leikjum sem „skipta ekki máli“ undir stjórn Lars og Heimis hefur ekki verið gott. Eftir sigurinn á Kanada gerði Ísland jafntefli við sama lið, annað jafntefli við Eistland og tapaði svo fyrir Póllandi og Slóvakíu.
Leikurinn í dag var í heildina ekki mikil skemmtun. Spilið var afar hægt og fá færi sköpuðust í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að hafa boltann en sóknarlotur Finna í fyrri hálfleik voru ekki sannfærandi.
Haraldur Björnsson kom inn á sem varamaður í byrjun seinni hálfleiks og þurfti að verja maður á móti manni eftir aðeins nokkrar sekúndur. Sóknarþungi Finna var meiri í seinni hálfleik en Haraldur stóð sig vel í sínum fyrsta landsleik og varði allt sem á markið kom.
Íslenska liðið skapaði sér ekki mörg færi í leiknum, en sóknarleikurinn var í heildina frekar bitlaus. Fyrir utan slæman kafla í byrjun seinni hálfleiks hélt liðið skipulagi og varðist ágætlega, en það hefur reynst vandamál í vináttuleikjum að undanförnu.
Arnór Ingvi heldur áfram að sannfæra þjálfarana um að hann eigi að fá farseðil á EM, en hann stóð sig líka vel í vináttuleikunum undir lok síðasta árs. Sölvi Geir Ottesen var nokkuð traustur í vörninni og Eiður Smári sýndi fína takta inn á miðjunni, sérstaklega þegar hann fékk boltann í fæturnar.
Íslenska liðið heldur áfram að æfa í Abu Dhabi og mætir heimamönnum frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum á laugardaginn.
Umfjöllun: Finnland - Ísland 0-1 | Arnór Ingvi sá um Finna
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið


Sveinn Margeir mögulega ekkert með Víkingum í sumar
Íslenski boltinn

„Tilefnið stórt og sterkt að landa sigri“
Körfubolti



Asensio skaut Villa áfram
Enski boltinn

Embiid frá út leiktíðina
Körfubolti

Albert kom við sögu í naumum sigri
Fótbolti


„Ákveðnir í því að gefa þeim enga von“
Körfubolti