
„Staðan er sú að við erum að undirbúa okkur af fullu kappi,“ segir Þórir Guðmundsson deildarstjóri Rauða krossins. „Á vegum Rauða krossins eru fjölskyldur sem munu vera stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólk. Þær hafa farið á námskeið og eru að setja sig í stellingar við að hjálpa þeim með aðlögun að íslensku samfélagi. Þá er sömuleiðis verið að undirbúa íbúðir þannig að þegar það kemur eftir langa og stranga ferð frá Líbanon þá gengur það beint inn í heimilislegar fullbúnar íbúðir.“
Hver flóttamannafjölskylda verður tengd við þrjár íslenskar fjölskyldur við komuna til landsins og er hugmyndin sú að mynda þannig félagslegt stuðningsnet í aðlögunarferlinu. Fólk á vegum innanríkisráðuneytisins fylgir fólkinu heim og fulltrúar Rauða krossins taka svo á móti þeim í Leifsstöð.
„Það er greinilega mikill hugur í landsmönnum og þá sérstaklega í þeim sem gerðust sjálfboðaliðar Rauða krossins til að takast á við þetta mikla verkefni að taka á móti þeim sem stuðningsfjölskyldur,“ segir Þórir.
Fjórar af fjölskyldunum sex munu setjast að á Akureyri og tvær í Kópavogi. Þrjár fjölskyldur til viðbótar sem höfðu lýsta áhuga á því að setjast að á Íslandi hættu við að koma. Í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu segir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í samvinnu við íslensk stjórnvöld undirbúið kom hóps í stað þeirra sem komust ekki.
Von er á þeim hópi innan fárra vikna og mun fólkið setjast að í Hafnarfirði og Kópavogi.