Sómalski íslamistahópurinn al Shabaab sendi á föstudag frá sér myndband þar sem bandaríska auðkýfingnum og forsetaframbjóðandanum Donald Trump bregður fyrir.
Í myndbandinu, sem ætlað er að sannfæra unga múslima um að ganga til liðs við samtökin, er sýnt frá fundi Trumps þar sem hann lagði til að múslimum yrði meinaður aðgangur að Bandaríkjunum – sem og frá fögnuði stuðningsmanna hans í kjölfar ummælanna.
Sjá einnig: Trump mælist enn með mest fylgi þrátt fyrir ummæli um múslima
Myndbrotinu bregður fyrir milli myndskeiða af Anwar al-Awlaki, leiðtoga samtakanna sem lést í drónaáras í Jemen árið 2011, þar sem hann segir bandaríska múslima standa frammi fyrir tveimur valkostum; annað hvort að yfirgefa landið og setjast að í íslömskum ríkjum eða verða eftir og berjast gegn Vesturlöndum.
Myndinni, sem er 51 mínúta að lengd, var dreift á Twitter-reikningi al-Kataib samtakanna á föstudag en þau gefa sig út fyrir að róttæk og herská íslamistasamtök.
Al Shabaab sækist eftir því að steypa yfirvöldum í Sómalíu, sem studd eru af Vesturlöndum, af stóli og koma á sharíalögum í landinu. Hópurinn hefur sterk tengsl við meðlimi al Qaeda og hefur staðið fyrir árásum í Keníu og Eþíópíu er fram kemur í frétt Reuters um málið.
Donald Trump mælist sem fyrr enn með mest fylgi af þeim frambjóðendum sem sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári.
