Fjölmenning og fámenning Guðmundur Andri Thorsson skrifar 10. ágúst 2015 07:00 Þau sem andvíg eru fjölmenningu eru þá væntanlega fylgjandi fámenningu. Hvað er það? Fámenning er menning þar sem hver dregur dám af öðrum, fólk er almennt á einu máli um flesta hluti en rífst um tittlingaskít. Það aðhyllist ríkjandi viðhorf, það er að segja þau sjónarmið sem „alltaf“ hafa verið ráðandi, hugsun sem enginn man hvernig upphaflega kom til eða í hvaða kolli kviknaði. Í fámenningu klæðir fólk sig almennt eins, það talar eins, það notar hendurnar á svipaðan máta, það segir svipaðar sögur og það upplifir svipaða hluti. Það trúir á sömu guði, aðhyllist sömu helgisiði, borðar svipaðan mat. Það hefur tilhneigingu til að segja: „Við erum nú vön að hafa það svona hérna.“ Í fámenningarsamfélagi eru nýjungar litnar hornauga, hvort sem það er nýtt krydd, ný dansspor eða framandleg orð af erlendum stofni. Forvitni er bundin við einkahagi náungans og hugsanlega lesti: hver sefur hjá hverjum, hver heldur framhjá hverjum, hver datt í það og hvernig, hvar og hvenær. Í fámenningu kunnum við hvert annað meira og minna utan að. Í fámenningarsamfélagi erum við úti í glugga bak við gardínu og fylgjumst með því hvort náunginn víki af þröngum vegi dyggðarinnar. Í fjölmenningarsamfélagi opnum við alla glugga upp á gátt og hleypum inn loftinu. Íslenskt samfélag hefur ýmist einkennst af fámenningu eða fjölmenningu. Hér var vissulega mikil einangrun um aldir en þó er íslenskt samfélag í grunninn og að stofni til fjölmenningarsamfélag innflytjenda úr ólíkum áttum sem blönduðust saman með ýmsum hætti. Í Landnámu er einkum mænt á landnám tiltekinna norskra höfðingja til að renna stoðum undir eignarhald og tilkall vissra ætta til landa og valds; þar er múgurinn nafnlaus, fjöldinn sem við erum flest komin af, fólk úr ýmsum áttum eins og genarannsóknir hafa leitt í ljós, og var margt af því þrælar. Sumar aldir var mikil verslun og umferð útlendinga hér við land – Þjóðverja og Englendinga til að mynda – en með svokölluðum Piningsdómi undir lok fimmtándu aldar tókst íslenskum stórbændum að banna vetursetu erlendra kaupmanna við sjávarsíðuna og kipptu þar með fótunum undan þéttbýlismyndun og tryggðu sér aðgang að mjög ódýru vinnuafli, sem þar að auki var gert ókleift að fara um og bjóða hæstbjóðanda þjónustu sína, með vistarbandi og banni við lausamennsku. Meðal þess sem við þágum af Englendingum var endarímið og ferskeytlan, örugglega alls konar falleg og skemmtileg lög sem runnu í alls konar farvegi og urðu smám saman lítt þekkjanleg. Við fengum handverksþekkingu, tískuvarning og ótal hugmyndir frá Evrópu. Ávextir íslenskrar fjölmenningarÁ blómaskeiði sínu er íslensk menning opið svæði en ekki lokað. Fjölmenning en ekki fámenning. Þær bókmenntir sem hér voru skapaðar á 13. öld, og eru hátindur íslenskrar menningar, urðu ekki til í andrúmslofti fámenningar heldur fjölmenningar. Þær vitna um gjöful evrópsk áhrif á íslenska menntamenn þeirra tíma, rétt eins og gerðist á blómaskeiði íslenskrar ljóðlistar á 19. öld. Jónas Hallgrímsson endurnýjaði íslenska ljóðlist þegar hún gerðist trénuð um miðja 19. öld með ítölskum háttum og öðrum evrópskum nýjungum sem hann bæði lagaði að íslensku skáldamáli af undraverðu listfengi, og gerði honum kleift að sjá fornan íslenskan skáldskap í nýju ljósi og nota hann til að endurnýja list sína. Hann sá eigin menningu í evrópsku ljósi; horfði á evrópska menningu með íslenskum augum. Rímurnar sem margir telja það þjóðlegasta af öllu þjóðlegu eru skringilegur hrærigrautur ýmissa sundurleitra efna: epísk söguljóð um evrópskt kóngafólk og evrópska kappa, tyrfið skáldamál sem er leið til að varðveita, nánast með launhelgum, ákveðna heiðna þekkingu og átrúnað – nokkurs konar hugmyndapækill – sönglist sem helst minnir á arabíska kveðandi – og svo hinn ferskeytti háttur í ótal tilbrigðum, sem sum eru ekki einu sinni ferskeytt, en er til okkar kominn frá Englandi eins og fyrr segir. Mannréttindi eru ekki umbunFjölmenning. Fjörmenning. Rímurnar trénuðust smám saman í einangruninni og þær tóku að láta undan sem almenn alþýðuskemmtun um leið og boðið var upp bíómyndir, og höfðu ekki til að bera endurnýjunarmátt til að vera lifandi hluti íslenskrar menningar á 20. öld – en gengu í endurnýjun lífdaganna þegar ný kynslóð listafólks fór að horfa á þessa fornu list frá nýjum sjónarhornum sem ný menningaráhrif að utan höfðu opnað, svo að nú er kvæðamaðurinn góði, Steindór Andersen, einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Rímurnar lifna aftur við í fjölmenningu, þær visna og deyja í fámenningu. Fjölmenning verður til þegar safnast saman alls konar ólíkt fólk, með ólíkan bakgrunn, ólíkt móðurmál, ólíka siði, ólíka trú, en á sameiginlegt opið fas og forvitni um hvert annað, löngun til að læra eitthvað nýtt hvert af öðru. Munum þetta. Fólk er gott, alveg lygilega gott, eins og Ari kvað. En fólki fylgir líka alls konar vesen – ekki síður í fjölmenningu en fámenningu. Og fólk sem hingað leitar í nauðum sínum, og kann jafnvel að luma á þekkingu sem við hefðum gott af að kynnast, og eiginleikum sem okkur gætu gagnast – það fólk á sér sín réttindi. En líka hæfileikalausa og leiðinlega fólkið; það á sér líka sín réttindi. Mannréttindi eru altæk og mælikvarði á samfélög hvernig þau eru virt. Fólk vinnur sér ekki inn mannréttindi með góðri hegðun; það fæðist til þeirra. Því má aldrei gleyma. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Þau sem andvíg eru fjölmenningu eru þá væntanlega fylgjandi fámenningu. Hvað er það? Fámenning er menning þar sem hver dregur dám af öðrum, fólk er almennt á einu máli um flesta hluti en rífst um tittlingaskít. Það aðhyllist ríkjandi viðhorf, það er að segja þau sjónarmið sem „alltaf“ hafa verið ráðandi, hugsun sem enginn man hvernig upphaflega kom til eða í hvaða kolli kviknaði. Í fámenningu klæðir fólk sig almennt eins, það talar eins, það notar hendurnar á svipaðan máta, það segir svipaðar sögur og það upplifir svipaða hluti. Það trúir á sömu guði, aðhyllist sömu helgisiði, borðar svipaðan mat. Það hefur tilhneigingu til að segja: „Við erum nú vön að hafa það svona hérna.“ Í fámenningarsamfélagi eru nýjungar litnar hornauga, hvort sem það er nýtt krydd, ný dansspor eða framandleg orð af erlendum stofni. Forvitni er bundin við einkahagi náungans og hugsanlega lesti: hver sefur hjá hverjum, hver heldur framhjá hverjum, hver datt í það og hvernig, hvar og hvenær. Í fámenningu kunnum við hvert annað meira og minna utan að. Í fámenningarsamfélagi erum við úti í glugga bak við gardínu og fylgjumst með því hvort náunginn víki af þröngum vegi dyggðarinnar. Í fjölmenningarsamfélagi opnum við alla glugga upp á gátt og hleypum inn loftinu. Íslenskt samfélag hefur ýmist einkennst af fámenningu eða fjölmenningu. Hér var vissulega mikil einangrun um aldir en þó er íslenskt samfélag í grunninn og að stofni til fjölmenningarsamfélag innflytjenda úr ólíkum áttum sem blönduðust saman með ýmsum hætti. Í Landnámu er einkum mænt á landnám tiltekinna norskra höfðingja til að renna stoðum undir eignarhald og tilkall vissra ætta til landa og valds; þar er múgurinn nafnlaus, fjöldinn sem við erum flest komin af, fólk úr ýmsum áttum eins og genarannsóknir hafa leitt í ljós, og var margt af því þrælar. Sumar aldir var mikil verslun og umferð útlendinga hér við land – Þjóðverja og Englendinga til að mynda – en með svokölluðum Piningsdómi undir lok fimmtándu aldar tókst íslenskum stórbændum að banna vetursetu erlendra kaupmanna við sjávarsíðuna og kipptu þar með fótunum undan þéttbýlismyndun og tryggðu sér aðgang að mjög ódýru vinnuafli, sem þar að auki var gert ókleift að fara um og bjóða hæstbjóðanda þjónustu sína, með vistarbandi og banni við lausamennsku. Meðal þess sem við þágum af Englendingum var endarímið og ferskeytlan, örugglega alls konar falleg og skemmtileg lög sem runnu í alls konar farvegi og urðu smám saman lítt þekkjanleg. Við fengum handverksþekkingu, tískuvarning og ótal hugmyndir frá Evrópu. Ávextir íslenskrar fjölmenningarÁ blómaskeiði sínu er íslensk menning opið svæði en ekki lokað. Fjölmenning en ekki fámenning. Þær bókmenntir sem hér voru skapaðar á 13. öld, og eru hátindur íslenskrar menningar, urðu ekki til í andrúmslofti fámenningar heldur fjölmenningar. Þær vitna um gjöful evrópsk áhrif á íslenska menntamenn þeirra tíma, rétt eins og gerðist á blómaskeiði íslenskrar ljóðlistar á 19. öld. Jónas Hallgrímsson endurnýjaði íslenska ljóðlist þegar hún gerðist trénuð um miðja 19. öld með ítölskum háttum og öðrum evrópskum nýjungum sem hann bæði lagaði að íslensku skáldamáli af undraverðu listfengi, og gerði honum kleift að sjá fornan íslenskan skáldskap í nýju ljósi og nota hann til að endurnýja list sína. Hann sá eigin menningu í evrópsku ljósi; horfði á evrópska menningu með íslenskum augum. Rímurnar sem margir telja það þjóðlegasta af öllu þjóðlegu eru skringilegur hrærigrautur ýmissa sundurleitra efna: epísk söguljóð um evrópskt kóngafólk og evrópska kappa, tyrfið skáldamál sem er leið til að varðveita, nánast með launhelgum, ákveðna heiðna þekkingu og átrúnað – nokkurs konar hugmyndapækill – sönglist sem helst minnir á arabíska kveðandi – og svo hinn ferskeytti háttur í ótal tilbrigðum, sem sum eru ekki einu sinni ferskeytt, en er til okkar kominn frá Englandi eins og fyrr segir. Mannréttindi eru ekki umbunFjölmenning. Fjörmenning. Rímurnar trénuðust smám saman í einangruninni og þær tóku að láta undan sem almenn alþýðuskemmtun um leið og boðið var upp bíómyndir, og höfðu ekki til að bera endurnýjunarmátt til að vera lifandi hluti íslenskrar menningar á 20. öld – en gengu í endurnýjun lífdaganna þegar ný kynslóð listafólks fór að horfa á þessa fornu list frá nýjum sjónarhornum sem ný menningaráhrif að utan höfðu opnað, svo að nú er kvæðamaðurinn góði, Steindór Andersen, einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Rímurnar lifna aftur við í fjölmenningu, þær visna og deyja í fámenningu. Fjölmenning verður til þegar safnast saman alls konar ólíkt fólk, með ólíkan bakgrunn, ólíkt móðurmál, ólíka siði, ólíka trú, en á sameiginlegt opið fas og forvitni um hvert annað, löngun til að læra eitthvað nýtt hvert af öðru. Munum þetta. Fólk er gott, alveg lygilega gott, eins og Ari kvað. En fólki fylgir líka alls konar vesen – ekki síður í fjölmenningu en fámenningu. Og fólk sem hingað leitar í nauðum sínum, og kann jafnvel að luma á þekkingu sem við hefðum gott af að kynnast, og eiginleikum sem okkur gætu gagnast – það fólk á sér sín réttindi. En líka hæfileikalausa og leiðinlega fólkið; það á sér líka sín réttindi. Mannréttindi eru altæk og mælikvarði á samfélög hvernig þau eru virt. Fólk vinnur sér ekki inn mannréttindi með góðri hegðun; það fæðist til þeirra. Því má aldrei gleyma.