Framsóknaráratugurinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 13. apríl 2015 07:00 Sigmundur Davíð hefur aðra og sennilega meiri vitund um söguna en flestir íslenskir stjórnmálamenn á hans reki. Hvarflar stundum að manni að hann hafi einhvers konar sýn sem hann langi til þess að sjá verða að raunveruleika – sé með plan. Hann þekkir línur Jónasar Hallgrímssonar: „Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum miðar / annaðhvort afturábak ellegar nokkuð á leið.“ Munurinn á honum og listaskáldinu góða er hins vegar sá að Sigmundur vill að við stígum afturábak.Retro Hriflon Hann er retrómaður. Mann grunar – án þess svo sem að maður viti það – að hann líti á það sem sögulegt hlutverk sitt að ljúka því verki sem Jónas Jónsson frá Hriflu hóf en auðnaðist ekki að ljúka því að hann hrökklaðist frá völdum eftir furðu skamman tíma vegna ofríkistilburða og valdofsa. Þetta sést í þeim hugmyndum sem Sigmundur hefur sett fram í skipulagsmálum og arkitektúr – og eru hans hjartans mál sem hann er sérmenntaður til – og snúast um að endurgera hús í anda Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins sem Jónas frá Hriflu hóf til vegs og virðingar á sínum tíma og fól að gefa Íslandi nýtt svipmót. Til að leggja sérstaka áherslu á Hriflu-eðli ríkisstjórnar sinnar kynnti Sigmundur Davíð hana á Laugarvatni, staðnum sem Jónas frá Hriflu beinlínis skapaði til að vera aflstöð nýrra afreka Íslendinga og táknmynd um fagurt mannlíf til sveita, samfélag sem átti að byggjast upp dreifbýlt en ekki þéttbýlt. Þarna stóðu þeir Bjarni Benediktsson við steyptar byggingar í burstabæjarstíl – og varð mjög skammlífur stíll – þar sem forðum var Héraðsskóli sem skyldi mennta bændur og búalið til að takast á við nýja öld, en nú er þar ekkert. Eitthvað lá í loftinu á þessum myndum. Þetta var eins og svið þar sem allt er búið í haginn fyrir mikinn söngleik. Endurreisn lá í loftinu. Nýtt þjóðlíf. Nýr dreifbýlisandi. Á Þingvöllum vill hann endurreisa Valhöll – sem líka var í burstabæjarstíl. Og hann hefur meira að segja grafið upp skólateikningu eftir Guðjón Samúelsson af hugmynd um viðbyggingu við sjálft Alþingishúsið – reyndar ekki í burstabæjarstíl – en áreiðanlega í anda þess sem Jónas frá Hriflu hefði viljað sjá, og myndi þurfa að rífa það glerhýsi sem nú er þar fyrir. Þetta er ráðamaður sem dreymir um að láta til sín taka og láta hendur standa fram úr ermum! Það er eins og Sigmund Davíð dreymi um að skapa það Ísland sem Jónas frá Hriflu ætlaði sér að skapa en náði ekki vegna þess að aðrir menn náðu völdunum í Framsóknarflokknum of snemma.Þjóðarósætti Hann er retrómaður. Og í efnahagsmálum virðist hann vilja magna upp annan og jafnvel enn ófrýnilegri uppvakning en menningarstefnu Jónasar frá Hriflu: verðbólgudrauginn. Forsætisráðherrann hvetur verkalýðshreyfinguna óspart til dáða um að láta ekki deigan síga með kröfuna um 300.000 króna lágmarkslaun, svo að ráðsettir verkalýðsleiðtogar vita naumast sitt rjúkandi ráð – hafa ekki staðið í verkfallsátökum síðan þjóðarsáttin var innleidd heldur litið svo á að hlutverk sitt eigi frekar að vera að efla kaupmátt en að sækja krónutöluhækkanir. Þessu er Sigmundur Davíð ósammála: Hann vill ekki að hér ríki þjóðarsátt. Hann aðhyllist þjóðarósætti. Það er ekki bara hvernig hann tjáir sig: hvernig hann er farinn að þrasa um fundarsköp við fréttamenn við einföldustu spurningar og stundar markvisst einræðustjórnmál en aldrei samræðustjórnmál. Og ekki bara þessar hrikalegu ýkjur: hvernig hann eys frámunalegu oflofi yfir eigin verk svo að allir verða hálfkindarlegir sem á hlýða … Nei: þetta ristir dýpra: Hann virðist hreinlega sjá fyrir sér að átök séu aflvaki framfara og hagvaxtar í landinu. Hann hvetur til mikilla krónutöluhækkana sem velt verður út í verðlagið og hann styður líka afnám verðtryggingar. Hann telur að Íslendingar eigi að nota krónuna um ókomnar aldir, enda sé hin íslenska króna – með „þjóðpeningakerfi“ sínu – þjóðinni jafn dýrmæt og hugþekk og hinn íslenski lundi, hin íslenska kind og hinn íslenski burstabæjarstíll Guðjóns Samúelssonar. Hann stefnir að afnámi hafta með tilheyrandi gengisfellingum á krónunni sem svo aftur leiða til verðhækkana, sem leiða til kauphækkana, sem leiða til gengisfellinga sem leiða … Sem sagt: við þessi gömlu munum þetta allt. Alveg frá því að Framsóknarmenn komust til valda hef ég haft á tilfinningunni að sá fjórðungur þjóðarinnar sem þeim veitti brautargengi hafi í aðra röndina gert það til þess að þeir gætu innleitt á ný Framsóknaráratuginn, eins og við munum hann; áttunda áratug síðustu aldar sem einkenndist af þeim víxlverkunum sem hér að ofan var lýst og sem allt stefnir nú í á ný. Fólk hafi jafnvel hugsað sem svo: Við höfum nú reynt þjóðarsátt í marga áratugi og hvað fengum við út úr því? Var verðbólgan endilega svo slæm þegar maður hugsar út í það? Þá gat fólk keypt sér húsnæði og látið verðbólguna éta upp lánin sem ekki voru verðtryggð … Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Sigmundur Davíð hefur aðra og sennilega meiri vitund um söguna en flestir íslenskir stjórnmálamenn á hans reki. Hvarflar stundum að manni að hann hafi einhvers konar sýn sem hann langi til þess að sjá verða að raunveruleika – sé með plan. Hann þekkir línur Jónasar Hallgrímssonar: „Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum miðar / annaðhvort afturábak ellegar nokkuð á leið.“ Munurinn á honum og listaskáldinu góða er hins vegar sá að Sigmundur vill að við stígum afturábak.Retro Hriflon Hann er retrómaður. Mann grunar – án þess svo sem að maður viti það – að hann líti á það sem sögulegt hlutverk sitt að ljúka því verki sem Jónas Jónsson frá Hriflu hóf en auðnaðist ekki að ljúka því að hann hrökklaðist frá völdum eftir furðu skamman tíma vegna ofríkistilburða og valdofsa. Þetta sést í þeim hugmyndum sem Sigmundur hefur sett fram í skipulagsmálum og arkitektúr – og eru hans hjartans mál sem hann er sérmenntaður til – og snúast um að endurgera hús í anda Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins sem Jónas frá Hriflu hóf til vegs og virðingar á sínum tíma og fól að gefa Íslandi nýtt svipmót. Til að leggja sérstaka áherslu á Hriflu-eðli ríkisstjórnar sinnar kynnti Sigmundur Davíð hana á Laugarvatni, staðnum sem Jónas frá Hriflu beinlínis skapaði til að vera aflstöð nýrra afreka Íslendinga og táknmynd um fagurt mannlíf til sveita, samfélag sem átti að byggjast upp dreifbýlt en ekki þéttbýlt. Þarna stóðu þeir Bjarni Benediktsson við steyptar byggingar í burstabæjarstíl – og varð mjög skammlífur stíll – þar sem forðum var Héraðsskóli sem skyldi mennta bændur og búalið til að takast á við nýja öld, en nú er þar ekkert. Eitthvað lá í loftinu á þessum myndum. Þetta var eins og svið þar sem allt er búið í haginn fyrir mikinn söngleik. Endurreisn lá í loftinu. Nýtt þjóðlíf. Nýr dreifbýlisandi. Á Þingvöllum vill hann endurreisa Valhöll – sem líka var í burstabæjarstíl. Og hann hefur meira að segja grafið upp skólateikningu eftir Guðjón Samúelsson af hugmynd um viðbyggingu við sjálft Alþingishúsið – reyndar ekki í burstabæjarstíl – en áreiðanlega í anda þess sem Jónas frá Hriflu hefði viljað sjá, og myndi þurfa að rífa það glerhýsi sem nú er þar fyrir. Þetta er ráðamaður sem dreymir um að láta til sín taka og láta hendur standa fram úr ermum! Það er eins og Sigmund Davíð dreymi um að skapa það Ísland sem Jónas frá Hriflu ætlaði sér að skapa en náði ekki vegna þess að aðrir menn náðu völdunum í Framsóknarflokknum of snemma.Þjóðarósætti Hann er retrómaður. Og í efnahagsmálum virðist hann vilja magna upp annan og jafnvel enn ófrýnilegri uppvakning en menningarstefnu Jónasar frá Hriflu: verðbólgudrauginn. Forsætisráðherrann hvetur verkalýðshreyfinguna óspart til dáða um að láta ekki deigan síga með kröfuna um 300.000 króna lágmarkslaun, svo að ráðsettir verkalýðsleiðtogar vita naumast sitt rjúkandi ráð – hafa ekki staðið í verkfallsátökum síðan þjóðarsáttin var innleidd heldur litið svo á að hlutverk sitt eigi frekar að vera að efla kaupmátt en að sækja krónutöluhækkanir. Þessu er Sigmundur Davíð ósammála: Hann vill ekki að hér ríki þjóðarsátt. Hann aðhyllist þjóðarósætti. Það er ekki bara hvernig hann tjáir sig: hvernig hann er farinn að þrasa um fundarsköp við fréttamenn við einföldustu spurningar og stundar markvisst einræðustjórnmál en aldrei samræðustjórnmál. Og ekki bara þessar hrikalegu ýkjur: hvernig hann eys frámunalegu oflofi yfir eigin verk svo að allir verða hálfkindarlegir sem á hlýða … Nei: þetta ristir dýpra: Hann virðist hreinlega sjá fyrir sér að átök séu aflvaki framfara og hagvaxtar í landinu. Hann hvetur til mikilla krónutöluhækkana sem velt verður út í verðlagið og hann styður líka afnám verðtryggingar. Hann telur að Íslendingar eigi að nota krónuna um ókomnar aldir, enda sé hin íslenska króna – með „þjóðpeningakerfi“ sínu – þjóðinni jafn dýrmæt og hugþekk og hinn íslenski lundi, hin íslenska kind og hinn íslenski burstabæjarstíll Guðjóns Samúelssonar. Hann stefnir að afnámi hafta með tilheyrandi gengisfellingum á krónunni sem svo aftur leiða til verðhækkana, sem leiða til kauphækkana, sem leiða til gengisfellinga sem leiða … Sem sagt: við þessi gömlu munum þetta allt. Alveg frá því að Framsóknarmenn komust til valda hef ég haft á tilfinningunni að sá fjórðungur þjóðarinnar sem þeim veitti brautargengi hafi í aðra röndina gert það til þess að þeir gætu innleitt á ný Framsóknaráratuginn, eins og við munum hann; áttunda áratug síðustu aldar sem einkenndist af þeim víxlverkunum sem hér að ofan var lýst og sem allt stefnir nú í á ný. Fólk hafi jafnvel hugsað sem svo: Við höfum nú reynt þjóðarsátt í marga áratugi og hvað fengum við út úr því? Var verðbólgan endilega svo slæm þegar maður hugsar út í það? Þá gat fólk keypt sér húsnæði og látið verðbólguna éta upp lánin sem ekki voru verðtryggð …