Hvað felst í nafni? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 30. mars 2015 00:00 Fyrst hugsar maður: Af hverju endar íslensk mannréttindabarátta alltaf í einhverju þvargi um að fá að nota nafn sem enginn bannar þér að nota? Fyrst Þorgeir með þetta óskiljanlega eina s í föðurnafninu; og núna Jón Gnarr búinn að fá viðurkennt með ærinni fyrirhöfn fyrir bandarískum dómstóli að hann heiti Jón Gnarr en ekki eitthvað sem enginn kallar hann nema Hagstofan og forstöðumaður eineltissviðs Sjálfstæðisflokksins. Málið er samt ekki alveg einfalt. Það eru þau aldrei. Það er smávægilegt og þess vegna mikilvægt.Spurðu ekki Hagstofuna hvað hún geti gert fyrir þig… Kannski spurningin ætti heldur að vera: Af hverju þarf að vera að standa í þvargi um það hvað maður vill heita gagnvart Keisaranum, guði og samfélaginu. Af hverju á nefnd valinkunnra einstaklinga að fjalla um það hvað þú heitir á bréfum Hagstofunnar til þín, og samþykkja hugmyndir þínar eða synja þeim? Fólk gefur sér ýmis nöfn, stundum á svokölluð hliðarsjálf og stundum á þá persónu sem það telur sig einkum vera og vill sýna umheiminum. Fólk gefur sér listamannsnöfn án þess að mannanafnanefnd sjái ástæðu til að hafa afskipti af því: „Nefndin hefur fjallað um umsókn þína að fá að heita MC Gauti en getur því miður ekki fallist á hana vegna þess að stafirnir MC samræmast ekki íslensku beygingarkerfi…“ Hver er í rauninni munurinn? Ætti ekki heldur að hafa áhyggjur af opinberum nöfnum fólks – þeim sem samfélagið þekkir og notar – en kennitölunöfnum? Af hverju þurfa nöfn á umslögum frá Hagstofunni fremur að samræmast íslensku beygingarkerfi en nöfn sem öllum erum töm? Tungumáli verður ekki stjórnað með lögum og lagabókstaf. Tungumál er lífið sjálft, óstýrilátt og streymandi í ótal farvegum. Og þegar landið er fullt af fólki sem kemur með annars konar nafnavenjur úr fyrri samfélögum hljóta lög sem takmarka rétt fólks til ákvarðana um nöfn sín og sinna að falla um sjálf sig. Nema við viljum aftur neyða það fólk sem hingað flyst til að kalla sig Kára og Jarþrúði. Eða snýst þetta að einhverju leyti um þarfir Hagstofunnar? Við munum þá tíð þegar Hagstofan bannaði of löng nöfn, vegna þess að það hentaði ekki þáverandi tölvukosti stofunnar, eins og þjóðin þyrfti að laga sig að tölvunum en ekki öfugt. Sá hugsunarháttur minnir dálítið á umræður á facebook-vegg Hallgríms Helgasonar um daginn þegar hann sýndi einn af þessum ólystilegu íslensku ostum sem eru svo linir að þeir fara í klessu við minnstu snertingu ostaskera; þá urðu ýmsir til að segja að hann hafi ekki verið með rétta ostaskerann. Þankagangurinn er með öðrum orðum sá að manni beri að laga sig að hroðanum fremur en að mótmæla honum og krefjast mannsæmandi varnings. En það á maður að gera. Maður á kröfu á því að fá að borða ætan ost á viðunandi verði. Og maður á kröfu á því að mega skilgreina sjálfan sig eins og maður kýs og koma fram fyrir annað fólk eins og maður hefur skilgreint sig, svo fremi sem almennt samkomulag ríki um að manni sé sjálfrátt.Vald yfir eigin mannhelgi Þessi þrá eftir valdi yfir eigin mannhelgi – eigin áru – eigin merkingu fyrir öðru fólki – braust fram í síðustu viku með dæmigerðu alíslensku „æði“ sem geta verið svo skemmtileg, þegar þúsundir kvenna beruðu brjóst sín á eigin forsendum og með frelsið að gunnfána: frelsi undan markaðsvæðingu mannslíkamans, frelsi undan glápmerkingu karlveldisins. Sú hugmynd að maður eigi sjálfur að ráða yfir sér – og þar með því hvaða nafni maður nefnist gagnvart sjálfum sér, öðru fólki og samfélaginu í heild – þetta er grundvallarhugmynd. Vissulega getur nafnið manns verið samvinnuverkefni – stundum heilt þorp sem tekur þátt í því – og ekki alltaf jafn indæl nöfnin sem fólk situr uppi með í viðurnefnalandinu Íslandi. Ekki hefur löggjafinn séð ástæðu til að láta slíkt til sín taka, enda vandséð hvernig því verði við komið. Aðrar hefðir hafa verið lífseigar hér á landi – til dæmis að kenna sig við staði og bæi: Bólu-Hjálmar … Sigríður Einars frá Munaðarnesi … Davíð frá Fagraskógi. Allt hefur þetta lifað einhvern veginn í þessum hálfgerða hrærigraut sem mannleg tilvera getur orðið þegar hún verður sem indælust og býr við hæfilegt afskiptaleysi af hálfu hins opinbera. Þar með er ekki sagt að samfélagsleg ábyrgð skipti engu máli; eða að samfélagið beri ekki ábyrgð á velfarnaði einstakra þegna. Samfélagið þarf hins vegar ekki að hafa vit fyrir einstaklingunum nema í undantekningartilvikum. Eftir stendur þá einkum tvennt: að löggjafinn hafi, af menningarlegum og sögulegum ástæðum, tekið að sér að vernda ævafornt mannanafnakerfi Íslendinga, að kenna sig við föður eða móður; og þetta viðkvæma kerfi sé í hættu og geti horfið með öllu á nokkrum mannsöldrum. Og svo hitt: Að það geti verið börnum erfitt að alast upp með nöfnum þar sem þörf foreldranna til að tjá sig gengur út í öfgar, og þau þurfi að vernda. Hið síðarnefnda er fyrst og fremst barnaverndarmál og ætti eiginlega að vera hluti af ungbarnaeftirlitinu þegar gætt er að því að sómasamlega sé búið að barninu, að það fái ekki of skrípaleg nöfn; það er í rauninni ekki málfræðileg spurning heldur siðferðileg. Hitt atriðið er erfiðara. En sé svo komið að eina vernd tungumáls og menningararfs séu lagaþvingunarúrræði – þá er sú menning feig. Sjálfur er ég ekki viss um að sá góði siður að kenna sig við foreldra muni hverfa sjálfkrafa, jafnvel þótt Jón fái að heita Gnarr. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mannanöfn Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Fyrst hugsar maður: Af hverju endar íslensk mannréttindabarátta alltaf í einhverju þvargi um að fá að nota nafn sem enginn bannar þér að nota? Fyrst Þorgeir með þetta óskiljanlega eina s í föðurnafninu; og núna Jón Gnarr búinn að fá viðurkennt með ærinni fyrirhöfn fyrir bandarískum dómstóli að hann heiti Jón Gnarr en ekki eitthvað sem enginn kallar hann nema Hagstofan og forstöðumaður eineltissviðs Sjálfstæðisflokksins. Málið er samt ekki alveg einfalt. Það eru þau aldrei. Það er smávægilegt og þess vegna mikilvægt.Spurðu ekki Hagstofuna hvað hún geti gert fyrir þig… Kannski spurningin ætti heldur að vera: Af hverju þarf að vera að standa í þvargi um það hvað maður vill heita gagnvart Keisaranum, guði og samfélaginu. Af hverju á nefnd valinkunnra einstaklinga að fjalla um það hvað þú heitir á bréfum Hagstofunnar til þín, og samþykkja hugmyndir þínar eða synja þeim? Fólk gefur sér ýmis nöfn, stundum á svokölluð hliðarsjálf og stundum á þá persónu sem það telur sig einkum vera og vill sýna umheiminum. Fólk gefur sér listamannsnöfn án þess að mannanafnanefnd sjái ástæðu til að hafa afskipti af því: „Nefndin hefur fjallað um umsókn þína að fá að heita MC Gauti en getur því miður ekki fallist á hana vegna þess að stafirnir MC samræmast ekki íslensku beygingarkerfi…“ Hver er í rauninni munurinn? Ætti ekki heldur að hafa áhyggjur af opinberum nöfnum fólks – þeim sem samfélagið þekkir og notar – en kennitölunöfnum? Af hverju þurfa nöfn á umslögum frá Hagstofunni fremur að samræmast íslensku beygingarkerfi en nöfn sem öllum erum töm? Tungumáli verður ekki stjórnað með lögum og lagabókstaf. Tungumál er lífið sjálft, óstýrilátt og streymandi í ótal farvegum. Og þegar landið er fullt af fólki sem kemur með annars konar nafnavenjur úr fyrri samfélögum hljóta lög sem takmarka rétt fólks til ákvarðana um nöfn sín og sinna að falla um sjálf sig. Nema við viljum aftur neyða það fólk sem hingað flyst til að kalla sig Kára og Jarþrúði. Eða snýst þetta að einhverju leyti um þarfir Hagstofunnar? Við munum þá tíð þegar Hagstofan bannaði of löng nöfn, vegna þess að það hentaði ekki þáverandi tölvukosti stofunnar, eins og þjóðin þyrfti að laga sig að tölvunum en ekki öfugt. Sá hugsunarháttur minnir dálítið á umræður á facebook-vegg Hallgríms Helgasonar um daginn þegar hann sýndi einn af þessum ólystilegu íslensku ostum sem eru svo linir að þeir fara í klessu við minnstu snertingu ostaskera; þá urðu ýmsir til að segja að hann hafi ekki verið með rétta ostaskerann. Þankagangurinn er með öðrum orðum sá að manni beri að laga sig að hroðanum fremur en að mótmæla honum og krefjast mannsæmandi varnings. En það á maður að gera. Maður á kröfu á því að fá að borða ætan ost á viðunandi verði. Og maður á kröfu á því að mega skilgreina sjálfan sig eins og maður kýs og koma fram fyrir annað fólk eins og maður hefur skilgreint sig, svo fremi sem almennt samkomulag ríki um að manni sé sjálfrátt.Vald yfir eigin mannhelgi Þessi þrá eftir valdi yfir eigin mannhelgi – eigin áru – eigin merkingu fyrir öðru fólki – braust fram í síðustu viku með dæmigerðu alíslensku „æði“ sem geta verið svo skemmtileg, þegar þúsundir kvenna beruðu brjóst sín á eigin forsendum og með frelsið að gunnfána: frelsi undan markaðsvæðingu mannslíkamans, frelsi undan glápmerkingu karlveldisins. Sú hugmynd að maður eigi sjálfur að ráða yfir sér – og þar með því hvaða nafni maður nefnist gagnvart sjálfum sér, öðru fólki og samfélaginu í heild – þetta er grundvallarhugmynd. Vissulega getur nafnið manns verið samvinnuverkefni – stundum heilt þorp sem tekur þátt í því – og ekki alltaf jafn indæl nöfnin sem fólk situr uppi með í viðurnefnalandinu Íslandi. Ekki hefur löggjafinn séð ástæðu til að láta slíkt til sín taka, enda vandséð hvernig því verði við komið. Aðrar hefðir hafa verið lífseigar hér á landi – til dæmis að kenna sig við staði og bæi: Bólu-Hjálmar … Sigríður Einars frá Munaðarnesi … Davíð frá Fagraskógi. Allt hefur þetta lifað einhvern veginn í þessum hálfgerða hrærigraut sem mannleg tilvera getur orðið þegar hún verður sem indælust og býr við hæfilegt afskiptaleysi af hálfu hins opinbera. Þar með er ekki sagt að samfélagsleg ábyrgð skipti engu máli; eða að samfélagið beri ekki ábyrgð á velfarnaði einstakra þegna. Samfélagið þarf hins vegar ekki að hafa vit fyrir einstaklingunum nema í undantekningartilvikum. Eftir stendur þá einkum tvennt: að löggjafinn hafi, af menningarlegum og sögulegum ástæðum, tekið að sér að vernda ævafornt mannanafnakerfi Íslendinga, að kenna sig við föður eða móður; og þetta viðkvæma kerfi sé í hættu og geti horfið með öllu á nokkrum mannsöldrum. Og svo hitt: Að það geti verið börnum erfitt að alast upp með nöfnum þar sem þörf foreldranna til að tjá sig gengur út í öfgar, og þau þurfi að vernda. Hið síðarnefnda er fyrst og fremst barnaverndarmál og ætti eiginlega að vera hluti af ungbarnaeftirlitinu þegar gætt er að því að sómasamlega sé búið að barninu, að það fái ekki of skrípaleg nöfn; það er í rauninni ekki málfræðileg spurning heldur siðferðileg. Hitt atriðið er erfiðara. En sé svo komið að eina vernd tungumáls og menningararfs séu lagaþvingunarúrræði – þá er sú menning feig. Sjálfur er ég ekki viss um að sá góði siður að kenna sig við foreldra muni hverfa sjálfkrafa, jafnvel þótt Jón fái að heita Gnarr.