Fótbolti

Arsenal þarf að sækja til sigurs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger á ærið verkefni fyrir höndum á sínum gamla heimavelli.
Arsene Wenger á ærið verkefni fyrir höndum á sínum gamla heimavelli. Fréttablaðið/getty
Arsenal þarf á litlu kraftaverki að halda í Mónakó í kvöld þar sem liðið mætir heimamönnum í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta. Skytturnar eru í vondum málum eftir 3-1 tap á heimavelli og þurfa að skora þrjú mörk í kvöld til að komast áfram.

Arsenal hefur fallið úr leik í 16 liða úrslitum keppninnar undanfarin fjögur ár og nú gæti Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kvatt Meistaradeildina á sínum gamla heimavelli.

Þótt Arsenal hafi grafið sína eigin gröf í fyrri leikjunum í 16 liða úrslitunum undanfarin ár hefur liðið oftar en ekki spilað vel í seinni leiknum og verið nálægt því að komast áfram. Ekki má gleyma ótrúlega 4-0 tapinu gegn AC Milan fyrir þremur árum, en þá kom liðið til baka og vann 3-0 á heimavelli. Öll nótt er því ekki úti enn hjá lærisveinum Wengers.

„Við getum gert eitthvað ótrúlegt í Mónakó,“ sagði Arsene Wenger á blaðamannafundi. „Þeir eru líklegri til að komast áfram en ég trúi að við komumst áfram.“

Wenger veit vel að liðið gerði stór mistök í fyrri leiknum á Emirates-vellinum.

„Auðvitað væri ég frekar til í að vera 3-0 yfir en þetta er staðan. Við verðum að leiðrétta mistökin okkar. Stundum gerir maður mistök í lífinu sem ekki er hægt að bæta fyrir. Þannig eru hlutirnir ekki í fótboltanum því maður fær alltaf tækifæri til koma til baka,“ sagði Arsene Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×