Misjöfn dansspor í jarðarför Sigríður Jónsdóttir skrifar 17. janúar 2015 13:00 María Heba, Tinna, Elma Lísa og Katla Margrét í hlutverkum sínum. Vísir/GVA Leiklist Ekki hætta að anda Höfundur:Auður Ava Ólafsdóttir. Leikarar: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir. Leikstjóri: Stefán Jónsson. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Danshöfundur: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir. Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Frumsýning á nýju íslensku leikriti er ávallt mikið ánægjuefni, þau hafa verið alltof fá þetta leikár. Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir hefur verið að hasla sér völl sem leikskáld á síðustu misserum við góðan orðstír og sýnir nú leikverkið Ekki hætta að anda, samstarfssýningu á vegum leikhópsins Háaloftið og Borgarleikhússins. Konurnar Ástríður, Dagný, Védís og Þuríður eru boðaðar í jarðarför Hákonar sem þær allar þekktu á mismunandi tímabilum. Þær byrja á að ræða um börnin sín (Sól, Sunnu, Birtu og Bjart), og þeirra tengsl við hinn látna, gera tilraun til að komast að því af hverju þeim var boðið í útförina og takast á við það skrýtna verkefni að endurgera lagið Don't Hold Your Breath sungið af Nicole Scherzinger til minningar um Hákon. Leikhópurinn vinnur ágætlega saman sem heild en misræmis gætir í leikgæðum. Katla Margrét ber af sem hin taugastrekkta en ákveðna Ástríður. Einnig á María Heba góða spretti í hlutverki hinnar lífhræddu Védísar. Báðar tvær ná góðum tökum á því tilfinningalega róti sem persónur þeirra eru að ganga í gegnum en dansa einnig skemmtilega á línunni milli dramatískra augnablika og þeirra skoplegu. Vandamálið er að persónurnar eru ekki nægilega vel dregnar upp og erfitt er að mynda tilfinningaleg tengsl við konurnar. Líf þeirra virðist snúast algjörlega um Hákon, þær efast aldrei um réttmæti þess að mæta í jarðarförina og það verkefni sem þeim er sett í hendur. Þær forðast hið raunverulega umræðuefni, fela sig í orðaleikjum, dansi og endurtekningum. Uppbygging af þessu tagi er grípandi upp að vissu marki en of langan tíma tekur að koma sýningunni í gang. Handritið tiplar á mörkum súrrealismans en aldrei er gengið nægilega langt, endurtekningar þræða verkið með misjöfnum árangri og sýningin nær hvorki að vera sérstaklega skopleg né átakanleg. Verkið nær hápunkti í seinni helmingnum en fipast síðan flugið þegar ástæða fundarins er upplýst. Stefán Jónsson er gríðarlega fær leikstjóri sem nær að gæða textann lífi og nýtir Litla sviðið virkilega vel en það er ekki nóg til að kveikja undir misjöfnu handriti. Uppbrot eiga sér stað í formi dansatriða sem oft á tíðum er erfitt að sjá tilgang með, stundum eru atriðin smellin en oftar en ekki of löng og ómarkviss. Melkorku tekst ágætlega upp en ekkert er nýtt undir sólinni og þrátt fyrir að nær öll atriðin séu hópdansar þá eru persónurnar skringilega aftengdar hver annarri í flestum þeirra. Hönnun Brynju Björnsdóttur er stílhrein, vel úthugsuð og þjónar verkinu einstaklega vel. Sömu sögu má segja um tónlist Árna Rúnars sem vefur klassíska kórtónlist fallega inn í nútíma popplög og frumsamda tóna. Vinna hans og lýsing Þórs Odds eiga stóran þátt í að gera lokaatriði verksins eftirminnilegt og áferðarfagurt. Ekki hætta að anda eftir Auði Övu er gallað en áhugavert leikverk sem nýtur góðs af virkilega góðri leikstjórn og sviðshönnun.Niðurstaða:Fallega innrömmuð sýning sem skortir markvisst handrit og jafnvægi í leikhópnum. Gagnrýni Menning Mest lesið Hrafnhildur hafnaði í öðru sæti í Miss Earth Lífið Þrjár íslenskar kvikmyndir hlutu verðlaun í Þýskalandi Lífið Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Krakkatía vikunnar: Handbolti, eldgos og Alþingi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Leiklist Ekki hætta að anda Höfundur:Auður Ava Ólafsdóttir. Leikarar: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir. Leikstjóri: Stefán Jónsson. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Danshöfundur: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir. Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Frumsýning á nýju íslensku leikriti er ávallt mikið ánægjuefni, þau hafa verið alltof fá þetta leikár. Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir hefur verið að hasla sér völl sem leikskáld á síðustu misserum við góðan orðstír og sýnir nú leikverkið Ekki hætta að anda, samstarfssýningu á vegum leikhópsins Háaloftið og Borgarleikhússins. Konurnar Ástríður, Dagný, Védís og Þuríður eru boðaðar í jarðarför Hákonar sem þær allar þekktu á mismunandi tímabilum. Þær byrja á að ræða um börnin sín (Sól, Sunnu, Birtu og Bjart), og þeirra tengsl við hinn látna, gera tilraun til að komast að því af hverju þeim var boðið í útförina og takast á við það skrýtna verkefni að endurgera lagið Don't Hold Your Breath sungið af Nicole Scherzinger til minningar um Hákon. Leikhópurinn vinnur ágætlega saman sem heild en misræmis gætir í leikgæðum. Katla Margrét ber af sem hin taugastrekkta en ákveðna Ástríður. Einnig á María Heba góða spretti í hlutverki hinnar lífhræddu Védísar. Báðar tvær ná góðum tökum á því tilfinningalega róti sem persónur þeirra eru að ganga í gegnum en dansa einnig skemmtilega á línunni milli dramatískra augnablika og þeirra skoplegu. Vandamálið er að persónurnar eru ekki nægilega vel dregnar upp og erfitt er að mynda tilfinningaleg tengsl við konurnar. Líf þeirra virðist snúast algjörlega um Hákon, þær efast aldrei um réttmæti þess að mæta í jarðarförina og það verkefni sem þeim er sett í hendur. Þær forðast hið raunverulega umræðuefni, fela sig í orðaleikjum, dansi og endurtekningum. Uppbygging af þessu tagi er grípandi upp að vissu marki en of langan tíma tekur að koma sýningunni í gang. Handritið tiplar á mörkum súrrealismans en aldrei er gengið nægilega langt, endurtekningar þræða verkið með misjöfnum árangri og sýningin nær hvorki að vera sérstaklega skopleg né átakanleg. Verkið nær hápunkti í seinni helmingnum en fipast síðan flugið þegar ástæða fundarins er upplýst. Stefán Jónsson er gríðarlega fær leikstjóri sem nær að gæða textann lífi og nýtir Litla sviðið virkilega vel en það er ekki nóg til að kveikja undir misjöfnu handriti. Uppbrot eiga sér stað í formi dansatriða sem oft á tíðum er erfitt að sjá tilgang með, stundum eru atriðin smellin en oftar en ekki of löng og ómarkviss. Melkorku tekst ágætlega upp en ekkert er nýtt undir sólinni og þrátt fyrir að nær öll atriðin séu hópdansar þá eru persónurnar skringilega aftengdar hver annarri í flestum þeirra. Hönnun Brynju Björnsdóttur er stílhrein, vel úthugsuð og þjónar verkinu einstaklega vel. Sömu sögu má segja um tónlist Árna Rúnars sem vefur klassíska kórtónlist fallega inn í nútíma popplög og frumsamda tóna. Vinna hans og lýsing Þórs Odds eiga stóran þátt í að gera lokaatriði verksins eftirminnilegt og áferðarfagurt. Ekki hætta að anda eftir Auði Övu er gallað en áhugavert leikverk sem nýtur góðs af virkilega góðri leikstjórn og sviðshönnun.Niðurstaða:Fallega innrömmuð sýning sem skortir markvisst handrit og jafnvægi í leikhópnum.
Gagnrýni Menning Mest lesið Hrafnhildur hafnaði í öðru sæti í Miss Earth Lífið Þrjár íslenskar kvikmyndir hlutu verðlaun í Þýskalandi Lífið Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Krakkatía vikunnar: Handbolti, eldgos og Alþingi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira