Við áramót: Að missa minnið Þorvaldur Gylfason skrifar 31. desember 2015 07:00 Hugmyndir manna um muninn á mönnum og skepnum hafa breytzt í tímans rás. Áður var talið að tungumálið skildi okkur mennina frá öðrum tegundum en það er ekki rétt því nú vitum við að þær tala sumar saman með sínum hætti. Á okkar dögum er uppi meðal fræðimanna sú skoðun að uppsöfnuð þekking, þ.e. hæfileiki hverrar kynslóðar til að læra af nýrri reynslu og skila þeirri þekkingu áfram til komandi kynslóða, skilji okkur mennina einna helzt frá öðrum dýrum. Ljónin á sléttum Afríku lifa sama lífi og þau hafa gert um árþúsundir, engin breyting þar. Við mennirnir lifum á hinn bóginn allt öðru lífi en við gerðum jafnvel þegar ég var að alast upp því þá voru lífskjör á Íslandi svipuð og þau eru nú í Kína. Amma mín giftist í Afríku, segi ég stundum. Þegar hún og afi minn byrjuðu að búa í Þingholtunum í Reykjavík á heimastjórnarárunum voru lífskjör á Íslandi svipuð því sem nú gerist í Gönu.Að læra af eigin reynslu og annarra Einstæður hæfileiki mannsins til að miðla reynslu sinni og þekkingu til komandi kynslóða, m.a. með því að færa reynsluna í letur til varðveizlu, ætti að réttu lagi að tryggja samfelldar framfarir enda er það reglan. Næstum allt sem við gerum í dagsins önn er auðveldara en það væri ef við þyrftum að hefja hvern nýjan dag á byrjunarreit eins og ljónin sem þurfa að hafa jafnmikið fyrir lífinu og þau hafa alltaf gert. Samt geymir saga mannsins mörg dæmi um stöðnun og jafnvel hnignun eins og til að minna okkur á að við eigum það til að missa fótanna og missa jafnvel minnið.Bágt að standa í stað Lífskjör á Íslandi stóðu í stað að heita má frá lokum þjóðveldis fram á 19. öld og voru að ýmsu leyti lakari en lífskjör voru í Grikklandi og Rómaveldi til forna, a.m.k. á Ítalíu. Margir Grikkir og Rómverjar bjuggu löngu fyrir Kristsburð við ýmis þægindi, t.a.m. rennandi vatn, hestvagna og steinhús, sem Íslendingar byrjuðu ekki að nota fyrr en á 19. og 20. öld. Íslendingar höfðu þó verið í Róm á þjóðveldisöld og kunnu að lesa og skrifa, en það dugði ekki til. Eins er þetta enn víða í fátækum löndum þar sem lífskjör eru mun lakari en þau gætu verið, þar eð fólkinu þar hefur ekki tekizt til fulls að tileinka sér lífshætti hinna sem lengra hafa náð. Víðast hvar er þó uppgangur í þróunarlöndum á okkar dögum. Síðustu ár hefur hagvöxtur á mann verið meiri í Afríku á heildina litið en í öðrum heimsálfum.Annaðhvort aftur á bak … Sagan geymir einnig dæmi um þjóðir sem fer aftur, ýmist miðað við aðrar þjóðir eða frá fyrri tíð. Við Kristsburð fyrir 2000 árum var Ítalía ríkasta land heims mælt í framleiðslu og tekjum á mann á ári og hélt þeim yfirburðum fram undir aldamótin 1600 þegar Hollendingar skutust upp fyrir Ítala. Bretar skutu síðan Ítölum aftur fyrir sig um 1700 og fóru fram úr Hollendingum um miðja 19. öld. Grikkir, Indverjar og Kínverjar voru hálfdrættingar á við Ítala um 1700 eins og þeir höfðu verið um Kristsburð. Írak, Íran og Tyrkland höfðu enn í fullu tré við Grikkland, Indland og Kína um 1700 líkt og um Kristsburð; hlutföllin héldust svipuð í 1700 ár. Iðnbyltingin sem hófst á Bretlandi á 18. öld setti strik í reikninginn. Árið 2008 voru tekjur á mann á Bretlandi orðnar næstum fimmtungi meiri en á Ítalíu og næstum helmingi meiri en á Grikklandi. Indverjar og Kínverjar voru hálfdrættingar á við Breta um 1700. Um 1950 var Bretland orðið 11 sinnum ríkara en Indland og 15 sinnum ríkara en Kína enda hafði Kína farið svo aftur sumpart fyrir afglöp keisaranna að lífskjörin þar voru svipuð 1950 og þau höfðu verið 2000 árum áður. Síðasta mannsaldur hefur Kína tekið fjörkipp í krafti efnahagsumbóta. Tekjur á mann þar austur frá hafa 15-faldazt frá 1950 og þá einnig frá fæðingu Krists. Til samanburðar hafa tekjur á mann sjöfaldazt á Indlandi á 2000 árum en ekki nema tvöfaldazt í Írak sem hafði þó staðið nokkurn veginn jafnfætis Indlandi og Kína við Kristsburð. Tekjur á mann í Írak 2008 voru aðeins sjöttungur af tekjum á mann í landinu 1980 þegar Írakar réðust á Íran og háðu þar stríð í átta ár, 1980-1988, og lauk með þrátefli. Flestar tölurnar sem hér eru raktar eru sóttar til Angusar Maddison sem var prófessor í háskólanum í Groningen í Hollandi og birti margar lærðar bækur um málið.… ellegar nokkuð á leið Til viðmiðunar hafa tekjur á mann á Bretlandi 25-faldazt frá fæðingu Krists líkt og í Japan á móti 30-földun í Grikklandi, 15-földun í Tyrklandi og 14-földun í Íran. Tekjur á mann á Íslandi og þá um leið lífskjörin hafa 16-faldazt frá heimastjórnarárunum eftir aldamótin 1900. Við erum ekki nema röskar þrjár vikur að vinna okkur inn tekjur sem afar okkar og ömmur eða langafar og langömmur þurftu heilt ár til að afla. Íslendingum tókst á röskum 100 árum að ná árangri sem Íranar og Tyrkir þurftu næstum 2000 ár til að ná. Af því má ráða að þúsund ára stöðnun er hægt að vinna upp á 100 árum eða jafnvel enn skemmri tíma sé vel á málum haldið. Langvinn stöðnun verður þó ekki léttbærari fyrir því, a.m.k. ekki fyrir þá sem fyrir henni verða. Svipaða sögu er að segja frá Suður-Kóreu. Þar voru tekjur á mann litlu meiri í lok heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 en við Kristsburð, en þær hafa 30-faldazt frá 1945.Sagan skiptir máli Löng skeið stöðnunar eða hnignunar t.d. á Íslandi fram að heimastjórn, í Kína fram til 1978 og í Írak fram á þennan dag minna okkur á hættuna sem vofir yfir þjóðum sem missa fótanna eða missa minnið, t.d. ef þær gleyma eða sjá sér stundarhag í að þykjast gleyma dýrmætri reynslu frá fyrri tíð frekar en að færa sér hana í nyt. Nýlegt dæmi er bankakreppa síðustu ára sem rekja má m.a. til þess að menn þóttust ekki lengur þurfa á að halda reynslunni af heimskreppunni 1929-1939 og ráðunum sem dugðu til að sigrast á henni. Annað dæmi er þjóðremban sem gerir nú aftur vart við sig í stjórnmálum sums staðar í Evrópu eins og aðdragandi tveggja heimsstyrjalda sé gleymdur. Eitt dæmi enn er hættan sem steðjar nú að heimsbyggðinni vegna fjölda furðulegra frambjóðenda úr röðum repúblikana sem sækjast eftir að verða forseti Bandaríkjanna að ári skyldi svo illa fara að einhver þeirra næði kjöri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við ætlumst til meira af þér Matthías Kormáksson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Hugmyndir manna um muninn á mönnum og skepnum hafa breytzt í tímans rás. Áður var talið að tungumálið skildi okkur mennina frá öðrum tegundum en það er ekki rétt því nú vitum við að þær tala sumar saman með sínum hætti. Á okkar dögum er uppi meðal fræðimanna sú skoðun að uppsöfnuð þekking, þ.e. hæfileiki hverrar kynslóðar til að læra af nýrri reynslu og skila þeirri þekkingu áfram til komandi kynslóða, skilji okkur mennina einna helzt frá öðrum dýrum. Ljónin á sléttum Afríku lifa sama lífi og þau hafa gert um árþúsundir, engin breyting þar. Við mennirnir lifum á hinn bóginn allt öðru lífi en við gerðum jafnvel þegar ég var að alast upp því þá voru lífskjör á Íslandi svipuð og þau eru nú í Kína. Amma mín giftist í Afríku, segi ég stundum. Þegar hún og afi minn byrjuðu að búa í Þingholtunum í Reykjavík á heimastjórnarárunum voru lífskjör á Íslandi svipuð því sem nú gerist í Gönu.Að læra af eigin reynslu og annarra Einstæður hæfileiki mannsins til að miðla reynslu sinni og þekkingu til komandi kynslóða, m.a. með því að færa reynsluna í letur til varðveizlu, ætti að réttu lagi að tryggja samfelldar framfarir enda er það reglan. Næstum allt sem við gerum í dagsins önn er auðveldara en það væri ef við þyrftum að hefja hvern nýjan dag á byrjunarreit eins og ljónin sem þurfa að hafa jafnmikið fyrir lífinu og þau hafa alltaf gert. Samt geymir saga mannsins mörg dæmi um stöðnun og jafnvel hnignun eins og til að minna okkur á að við eigum það til að missa fótanna og missa jafnvel minnið.Bágt að standa í stað Lífskjör á Íslandi stóðu í stað að heita má frá lokum þjóðveldis fram á 19. öld og voru að ýmsu leyti lakari en lífskjör voru í Grikklandi og Rómaveldi til forna, a.m.k. á Ítalíu. Margir Grikkir og Rómverjar bjuggu löngu fyrir Kristsburð við ýmis þægindi, t.a.m. rennandi vatn, hestvagna og steinhús, sem Íslendingar byrjuðu ekki að nota fyrr en á 19. og 20. öld. Íslendingar höfðu þó verið í Róm á þjóðveldisöld og kunnu að lesa og skrifa, en það dugði ekki til. Eins er þetta enn víða í fátækum löndum þar sem lífskjör eru mun lakari en þau gætu verið, þar eð fólkinu þar hefur ekki tekizt til fulls að tileinka sér lífshætti hinna sem lengra hafa náð. Víðast hvar er þó uppgangur í þróunarlöndum á okkar dögum. Síðustu ár hefur hagvöxtur á mann verið meiri í Afríku á heildina litið en í öðrum heimsálfum.Annaðhvort aftur á bak … Sagan geymir einnig dæmi um þjóðir sem fer aftur, ýmist miðað við aðrar þjóðir eða frá fyrri tíð. Við Kristsburð fyrir 2000 árum var Ítalía ríkasta land heims mælt í framleiðslu og tekjum á mann á ári og hélt þeim yfirburðum fram undir aldamótin 1600 þegar Hollendingar skutust upp fyrir Ítala. Bretar skutu síðan Ítölum aftur fyrir sig um 1700 og fóru fram úr Hollendingum um miðja 19. öld. Grikkir, Indverjar og Kínverjar voru hálfdrættingar á við Ítala um 1700 eins og þeir höfðu verið um Kristsburð. Írak, Íran og Tyrkland höfðu enn í fullu tré við Grikkland, Indland og Kína um 1700 líkt og um Kristsburð; hlutföllin héldust svipuð í 1700 ár. Iðnbyltingin sem hófst á Bretlandi á 18. öld setti strik í reikninginn. Árið 2008 voru tekjur á mann á Bretlandi orðnar næstum fimmtungi meiri en á Ítalíu og næstum helmingi meiri en á Grikklandi. Indverjar og Kínverjar voru hálfdrættingar á við Breta um 1700. Um 1950 var Bretland orðið 11 sinnum ríkara en Indland og 15 sinnum ríkara en Kína enda hafði Kína farið svo aftur sumpart fyrir afglöp keisaranna að lífskjörin þar voru svipuð 1950 og þau höfðu verið 2000 árum áður. Síðasta mannsaldur hefur Kína tekið fjörkipp í krafti efnahagsumbóta. Tekjur á mann þar austur frá hafa 15-faldazt frá 1950 og þá einnig frá fæðingu Krists. Til samanburðar hafa tekjur á mann sjöfaldazt á Indlandi á 2000 árum en ekki nema tvöfaldazt í Írak sem hafði þó staðið nokkurn veginn jafnfætis Indlandi og Kína við Kristsburð. Tekjur á mann í Írak 2008 voru aðeins sjöttungur af tekjum á mann í landinu 1980 þegar Írakar réðust á Íran og háðu þar stríð í átta ár, 1980-1988, og lauk með þrátefli. Flestar tölurnar sem hér eru raktar eru sóttar til Angusar Maddison sem var prófessor í háskólanum í Groningen í Hollandi og birti margar lærðar bækur um málið.… ellegar nokkuð á leið Til viðmiðunar hafa tekjur á mann á Bretlandi 25-faldazt frá fæðingu Krists líkt og í Japan á móti 30-földun í Grikklandi, 15-földun í Tyrklandi og 14-földun í Íran. Tekjur á mann á Íslandi og þá um leið lífskjörin hafa 16-faldazt frá heimastjórnarárunum eftir aldamótin 1900. Við erum ekki nema röskar þrjár vikur að vinna okkur inn tekjur sem afar okkar og ömmur eða langafar og langömmur þurftu heilt ár til að afla. Íslendingum tókst á röskum 100 árum að ná árangri sem Íranar og Tyrkir þurftu næstum 2000 ár til að ná. Af því má ráða að þúsund ára stöðnun er hægt að vinna upp á 100 árum eða jafnvel enn skemmri tíma sé vel á málum haldið. Langvinn stöðnun verður þó ekki léttbærari fyrir því, a.m.k. ekki fyrir þá sem fyrir henni verða. Svipaða sögu er að segja frá Suður-Kóreu. Þar voru tekjur á mann litlu meiri í lok heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 en við Kristsburð, en þær hafa 30-faldazt frá 1945.Sagan skiptir máli Löng skeið stöðnunar eða hnignunar t.d. á Íslandi fram að heimastjórn, í Kína fram til 1978 og í Írak fram á þennan dag minna okkur á hættuna sem vofir yfir þjóðum sem missa fótanna eða missa minnið, t.d. ef þær gleyma eða sjá sér stundarhag í að þykjast gleyma dýrmætri reynslu frá fyrri tíð frekar en að færa sér hana í nyt. Nýlegt dæmi er bankakreppa síðustu ára sem rekja má m.a. til þess að menn þóttust ekki lengur þurfa á að halda reynslunni af heimskreppunni 1929-1939 og ráðunum sem dugðu til að sigrast á henni. Annað dæmi er þjóðremban sem gerir nú aftur vart við sig í stjórnmálum sums staðar í Evrópu eins og aðdragandi tveggja heimsstyrjalda sé gleymdur. Eitt dæmi enn er hættan sem steðjar nú að heimsbyggðinni vegna fjölda furðulegra frambjóðenda úr röðum repúblikana sem sækjast eftir að verða forseti Bandaríkjanna að ári skyldi svo illa fara að einhver þeirra næði kjöri.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun