Alls söfnuðust rúmlega 21,7 milljónir í keppninni sem er met. Landspítalinn fékk söfnunarféð afhent í júlí síðastliðnum og í dag tók María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, á móti gestum og fræddi þá um þá starfsemi sem þegar er hafin þar.
„Það dylst engum að góð líkamleg heilsa og hreyfing skiptir sköpum fyrir lífsgæði fólks. Fólk með geðfötlun á þó því miður oft erfitt með að huga að sinni líkamlegu heilsu á sama tíma og það glímir við mikla geðræna og tilfinningalega erfiðleika,“ segir Hjalti Einarsson, verkefnastjóri á geðsviði Landspítalans, í tilkynningu vegna opnunarinnar.
„Að veita hverjum og einum þann stuðning sem til þarf, ráðgjöf og val um ólíkar leiðir til heilsueflingar tryggir aukin lífsgæði og er því lykilatriði í öflugri og persónumiðaðri geðheilbrigðiþjónustu. Það hefur sýnt sig að styrkur WOW Cyclothon til þessa verkefnis er ómetanlegur.“
Aðstandendur WOW Cyclothon segjast í tilkynningunni í skýjunum með hversu vel tókst til við keppnina og vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt sem og þeirra sem lögðu hönd á plóginn með áheitum.
