Bandaríkin hafa fylkt sér í lið með aðildarríkjum ESB og fjölda annarra ríkja í tilraun sinni til að tryggja að metnaðarfullt samkomulag náist um endanlegan samning á loftslagsráðstefnunni í París sem lýkur á morgun.
Fylkingin sem vinnur að því að ná metnaðarfullum samningi samanstendur nú af rúmlega hundrað ríkjum hvaðanæva að úr heiminum. Í frétt BBC kemur fram að auk Bandaríkjanna, hafi ríki á borð við Noreg, Mexíkó og Kólumbía gengið til liðs við fylkinguna.
Ný samningsdrög voru kynnt síðdegis í gær og unnu fulltrúar ríkja langt fram á nótt við það að ná samkomulagi um fjölda atriða.
Líklegt þykir að ný samningsdrög verði kynnt síðar í dag.
Aðildarríki ESB slógust í hóp 79 ríkja frá Afríku, Karíbahafi og Eyjaálfu fyrr í vikunni til að þrýsta á „metnaðarfullan, haldgóðan og lagalega bindandi“ samning, með ákvæði um að öflugt eftirlit á fimm ára fresti um hvort ákvæðum sé framfylgt.
Bandaríkin gengu svo til liðs við ríkin í gær sem hafa nú sett fram sameiginlega afstöðu um hvað Parísarsamningurinn verði að taka til.
