Fótbolti

Maradona spilaði með Napoli þegar þeir voru síðast á toppnum á þessum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona og leikmenn Napoli að fagna í gær.
Diego Maradona og leikmenn Napoli að fagna í gær. Vísir/Getty
Napoli komst á topp ítölsku A-deildarinnar eftir 2-1 sigur á Internazionale í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í gær.

Þetta er í fyrsta sinn sem Napoli er í toppsætinu á tímabilinu og lið Inter náði jafnframt aðeins að vera þær í eina umferð.

Inter var búið að vinna fjóra leiki í röð fyrir leikinn og hafði ekki tapað leik síðan á móti AC Fiorentina 27. september. Fiorentina átti líka möguleika á toppsætinu en gerði 1-1 jafntefli við Sassuolo.

Argentínumaðurinn Gonzalo Higuaín skoraði bæði mörkin há Napoli, það fyrra á 2. mínútu og það seinna á 62. mínútu. Adem Ljajic minnkaði síðan muninn á 67. mínútu.

Gonzalo Higuaín er nú með tveggja marka forystu á listanum yfir markahæstu menn deildarinnar en hann hefur skorað alls tólf deildarmörk á tímabilinu. Næstur á eftir honum er Eder hjá Sampdoria með tíu mörk.

Napoli-liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð í A-deildinni og ennfremur sjö af síðustu átta deildarleikjum sínum. Eina tap liðsins kom á móti í fyrstu umferðinni.

Higuaín hefur skorað 4 af 5 mörkum Napoli í þessum þremur sigurleikjum og alls 70 prósent marka liðsins í undanförnum sjö deildarleikjum (7 af 10).

Napoli var síðast í toppsæti  deildarinnar þegar svo langt var liðið á mótið tímabilið 1989 til 1990 en það var einmitt tímabilið sem félagið vann síðasta ítalska meistaratitilinn og Diego Maradona var allt í öllu hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×