Það er fámennt en góðmennt á Hero World Challenge sem hefst í dag en allir af þeim 18 kylfingum sem eru skráðir til leiks eru í topp 50 á heimslistanum.
Tiger Woods heldur mótið en í ár fer það fram á Bahamaeyjum og keppendur munu skipta með sér rúmlega 500 milljónum í verðlaunafé.
Þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið í Albany á Bahamaeyjum en Tiger Woods og Ernie Els eiga þennan glæsilega völl, sem Els hannaði sjálfur.
Tiger er þó ekki meðal þátttakenda í ár þar sem hann er enn að jafna sig eftir tvær bakaðgerðir sem hann fór í fyrr á árinu.
Jordan Spieth á titil að verja eftir að hafa sigrað á mótinu í fyrra með 10 högga mun en hann leikur í holli með Indverjanum Anibarn Lahiri á fyrsta hring.
Þá verða augu margra eflaust á tveimur af vinsælustu kylfingum PGA-mótaraðarinnar, Bubba Watson og Rickie Fowler, en þeir leika einnig saman.
Hero World Challenge verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni og hefst útsending frá fyrsta hring klukkan 18:00 í kvöld.
