Útlitið var þó ekki alltof bjart fyrir Manchester City því Borussia Mönchengladbach var 2-1 yfir þegar aðeins rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.
Leikmenn Manchester City áttu hinsvegar frábæran lokakafla með þá Raheem Sterling og Wilfried Bony í fararbroddi.
Raheem Sterling skoraði tvö mörk eftir sendingar frá Wilfried Bony og Bony skoraði svo sjálfur fjórða markið en þessi þrjú mörk komu á aðeins fimm mínútna kafla.
Manchester City hlaut því einu stigi meira en Juventus sem tapaði 1-0 á móti Sevilla á sama tíma.
David Silva kom Manchester City í 1-0 strax á sextándu mínútu eftir frábæra hælsendingu Raheem Sterling.
Julian Korb jafnaði hinsvegar metin aðeins þremur mínútum síðar. Það var síðan Raffael sem kom Borussia Mönchengladbach í 2-1 þremur mínútum fyrir hálfleik.
Þannig var staðan þangað til að Manchester City fór á flug á lokamínútum leiksins. Sigurinn var fyllilega sanngjarn þótt að City-menn hafi þurft að bíða eftir mörkunum þangað til í lokin.