Árið 2015 hefur verið metár í yfirtökum fyrirtækja. Með yfirtöku Pfizer á Allergan, sem tilkynnt var um á mánudaginn, nema yfirtökurnar 4.200 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 555 þúsund milljarða íslenskra króna.
Breska blaðið City AM greinir frá því að fimm yfirtökusamningar á árinu séu á lista yfir 20 verðmætustu samninga allra tíma. Stærsti samningur ársins er samningur Pfizer og Allergan sem metinn er á 21 þúsund milljarða. Á eftir honum kemur samningur brugghúsanna AB InBev og SABMiller sem metinn er á 15,5 þúsund milljarða. Samsteypan mun eiga þriðjung af markaðshlutdeild bjórs í heiminum eftir sameiningu. Þriðji verðmætasti samningurinn er svo yfirtaka Shell á BG Group sem metin er á 11 þúsund milljarða.
Yfirtökur bandarískra fyrirtækja á evrópskum fyrirtækjum hafa færst í aukana undanfarin ár. Sérfræðingar telja að ástæðuna megi rekja til þess að fyrirtækin vilji forðast tiltölulega háa fyrirtækjaskatta í Bandaríkjunum.
