Sanders mælist nú með 29 prósenta fylgi á landsvísu en mældist með 24 prósent í síðustu könnun fyrir kappræðurnar. Þá mælist Clinton með 45 prósent, jafn mikið og fyrir kappræður.
Fylgi Joes Biden varaforseta, sem ekki hefur lýst yfir framboði, lækkar lítillega, úr nítján prósentum í átján. Brendan Boyle, einn fulltrúadeildarþingmanna demókrata, fullyrti í gær að Biden ætlaði í framboð. Aðspurður hvort það væri ekki of seint benti hann á að Bill Clinton hefði á síðum tíma farið í framboð í október og unnið.
I have a very good source close to Joe that tells me VP Biden will run for Prez
— US Rep Brendan Boyle (@RepBrendanBoyle) October 19, 2015
For people who think it's too late for Biden to run, worth remembering Bill Clinton entered the 92 race in October
— US Rep Brendan Boyle (@RepBrendanBoyle) October 19, 2015

Þá er Biden sá valkostur sem litinn er jákvæðustum augum en 51 prósent þátttakenda sögðust hafa jákvæða skoðun á honum samanborið við 46 prósent hjá Hillary Clinton og 41 prósent hjá Bernie Sanders. Fæstir segjast þó líta Sanders neikvæðum augum, 29 prósent samanborið við 37 prósent Bidens og 50 prósent Clinton.

Í könnun CNN var frambjóðendunum þremur stillt upp, hverju í sínu lagi, andspænis Donald Trump, sem mælist með mest fylgi á meðal þeirra repúblikana sem vilja verða forseti, og þátttakendur spurðir hvorn frambjóðandann þeir myndu heldur kjósa.
Allir frambjóðendur demókrata voru vinsælli en Trump en minnstu munaði á milli Trump og Clinton. Hún mældist með fimmtíu prósent en Trump 45 prósent. Biden stóð öllu betur og hafði 53 prósent gegn 43 prósentum Trumps og Sanders hafði 53 prósent gegn 44 prósentum Trumps.