Fótbolti

Jafntefli hjá Paris Saint-Germain og Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva og Cristiano Ronaldo takast hér á í leiknum í kvöld.
Thiago Silva og Cristiano Ronaldo takast hér á í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Paris Saint-Germain og Real Madrid gerðu stórmeistarajafntefli í toppslag A-riðils í Meistaradeildinni í fótbolta.

Liðin spiluðu skynsamlega og tóku ekki miklu áhættu en þau eru nú í efstu tveimur sætum riðilsins með fjögurra stiga forskot á Malmö þegar riðlakeppnin er hálfnuð.

Framundan er síðan leikur liðanna í Madrid en það lítur allt út fyrir það að þessi öflugu fótboltalið muni ekki eiga í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn en Real Madrid náði fleiri skotum að marki og Jese fékk besta færi hálfleiksins á 26. mínútu en Kevin Trapp varði frá honum.

Édinson Cavani fékk fínt færi í upphafi seinni hálfleiks en skot hans fór framhjá og skömmu síðar skaut Cristiano Ronaldo enn á ný framhjá úr aukaspyrnu á góðum stað.

Cristiano Ronaldo fékk algjört dauðafæri á 73. mínútu en hann skaut rétt framhjá eftir að hafa fengið nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig í teignum.

Bæði lið fengu því færi til þess að tryggja sér sögu og það var hart tekist á í leiknum en á endanum sættust menn á stigið.

Úrslitaleikur riðilsins fer væntanlega fram í Madríd í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×