Susana Monje, einn varaforseta Barcelona, segir að ásakanir aðstoðardómara um mögulega hagræðingu úrslita leiks liðsins gegn Real Madrid, gætu haft víðtæk áhrif.
Spænskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun, líkt og Vísir hefur fjallað um, að aðstoðardómari á Spáni hefur kvartað undan því við lögreglu að honum hafi verið gert að dæma Real Madrid í hag þegar liðið mætir Barcelona í El Clásico-leik liðanna í næsta mánuði.
Ekki er búið að gefa út hver verður dómari leiksins en í fjölmiðlum er fullyrt að dómararnir viti það sjálfir. Umræddur aðaldómari leiksins á að hafa haft samband við aðstoðardómarann og beðið hann um að dæma Real Madrid í hag í leiknum.
Nafni aðstoðardómarans er haldið leyndu og er málið tekið alvarlega. Það er nú í rannsókn hjá spænska knattspyrnusambandinu.
Monje vonast til að ásakanir aðstoðardómarans reynist ekki réttar. „Ef þetta er rétt þá er orðspor deildarinnar okkar í hættu,“ sagði hún.
Fréttirnar komu hins vegar Diego Simeone, stjóra Atletico Madrid, ekki á óvart. „Deildin er hættulega upp sett fyrir Real Madrid. Real getur ekki unnið titilinn bara einu sini á sjö árum. Ég held að því miður sé ekkert annað lið sem geti unnið deildina í ár,“ sagði Simeone.
