Hannes Þór Halldórsson var fyrir leikinn í kvöld búinn að spila hverja einustu mínútu en hann meiddist um síðustu helgi og því var komið að Ögmundi.
„Mér leið bara vel. Þetta var eins og maður bjóst við - stemningin var rosaleg,“ sagði Ögmundur stóískur við Vísi eftir leikinn í kvöld.
„Við spiluðum bara flottan leik myndi ég segja. Þeir gerðu ekki mikið en svo fengu þeir þetta mark undir lokin.“
Fannst honum þetta vera aukaspyrna á Kára Árnason sem markið var skorað upp úr? „Ég held ekki. Mér fannst þetta mjúkur dómur. Nei, þetta var ekki aukaspyrna,“ sagði markvörðurinn, en var ekkert mál að koma inn í liðið í kvöld?
„Það var ekkert vandamál. Það er létt að spila með miðvörðum eins og Kára og Ragga. Þeir eru frábærir miðverðir sem hjálpa manni mikið.“
Ögmundur sagði að stefnan var klárlega að vinna leikinn í kvöld þó það hafi vantað upp á sóknarleikinn. „Við vildum vinna þennan leik. Við hefðum hæglega getað unnið þannig þetta er drullusvekkjandi,“ sagið Ögmundur Kristinsson.