Ronald Koeman, stjóri Southampton, hefur verið sterklega orðaður við hollenska landsliðið upp á síðkastið.
Það gekk hvorki né rak hjá hollenska liðinu í undankeppni EM. Guus Hiddink hætti en það breytti engu. Danny Blind gerði ekkert betur sem aðalmaður.
Það er því krafa um ferska vinda í hollenska landsliðið í ljósi þess afhroðs sem liðið beið í undankeppninni.
Blind er til í að vera áfram ef Hollendingar vilja halda honum. Sömu sögu er ekki að segja af Koeman. Hann er ánægður á Englandi.
„Ég er stjóri Southampton og ég vil gjarna vera það áfram. Ég á nóg eftir af mínum samningi og stefni á að vera hér líka næsta vetur,“ sagði Koeman en hann hefur augljóslega ekki áhuga á starfinu.
„Kannski verð ég landsliðsþjálfari síðar en það veltur á mörgum hlutum.“
