Fótbolti

Liðsfélagi Kára vildi ekki skipta um treyju við Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Tinnerholm og Kári Árnason í baráttunni við Cristiano Ronaldo í gær.
Anton Tinnerholm og Kári Árnason í baráttunni við Cristiano Ronaldo í gær. Vísir/AFP
Cristiano Ronaldo jafnaði í gær markamet Real Madrid þegar hann skoraði tvö mörk í 2-0 sigri Real Madrid á Kára Árnasyni og félögum í Malmö í annarri umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Ronaldo gerði út um leikinn með mörkum númer 322 og 323 fyrir Real Madrid og hann er nú jafn Raúl þrátt fyrir að hafa spilað 433 leikjum færra.

Anton Tinnerholm, varnarmaður Malmö, þurfti eins og Kári okkar Árnason að glíma við besta knattspyrnumann heims undanfarin tvö ár.

„Við töluðum um það fyrir leikinn að gera þetta eins erfitt fyrir þá og hægt var. Ronaldo var ekki það áberandi í leiknum en hann skoraði samt tvö mörk. Það segir sitt um hversu góður hann er," sagði Anton Tinnerholm við Guardian.

Anton Tinnerholm var síðan spurður út í það hvort að hann hafi skipt um treyju við Cristiano Ronaldo. „Nei besta treyjan er Malmö-treyjan," svaraði Tinnerholm með stolti.

Cristiano Ronaldo var kátur eftir leikinn og sagði fjölmiðlamönnum frá því að hann hafi fengið skilaboð frá Raúl sem skoraði á hann að skora 300 fleiri mörk fyrir Real Madrid.

Ronaldo hefur verið orðaður ítrekað við sitt gamla félag Manchester United en hann segir að sín næsta framtíð sé í Madrid. „Ég vil vinna hérna og mér líður vel hjá Real Madrid. Ég hef samt sagt það milljón sinnum að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Við sjáum bara til hvað gerist," sagði Ronaldo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×