Lögreglumaður með sjö ára starfsreynslu er með 454 þúsund krónur í mánaðarlaun. Þetta kemur fram í launaseðli mannsins sem kollegi hans birtir á Facebook í dag en sem kunnugt er standa lögreglumenn landsins í kjarabaráttu og krefjast hærri launa.
Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, birtir launaseðilinn fyrir hönd lögreglumannsins sem sinnir útköllum á vettvangi.
„Þennan mánuð var það þetta týpíska sem allir þekkja úr vinnunni. Hótanir, ógnað með hníf, sjálfsvíg, andlát, banaslys þar sem vettvangur var ekki fyrir hvern sem er, heimilisofbeldi þar sem börn komu mikið við sögu og margt margt annað,“ segir Sigvaldi í færslu með launaseðlinum.
Um er að ræða laun fyrir fullan mánuð auk þrekálags og sérstakrar álagsgreiðslu eins og sést á launaseðlinum að ofan. Hann fær útborgað eftir skatt 285 þúsund krónur.
Starfið frábært en launin ekki
Sigvaldi segir í samtali við Vísi nauðsynlegt að fram komi að lögreglumenn séu ekki að kvarta yfir starfinu sínu. Það sé frábært. Það séu launin hins vegar ekki.
„Jú við völdum okkur starfið sjálf engin spurning og erum ekki að kvarta undan starfinu. Við erum að kvarta undan helvítis laununum. Eigandi þessa seðils er bugaður eftir að hann fékk launaseðilinn. Á bakvið þetta eru næturvaktir og helgarvaktir.“
Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt en hafa minnt á stöðu sína með reglulegu millibili undanfarnar vikur.
Lögreglumaður í kjarabaráttu birtir launaseðilinn sinn

Tengdar fréttir

Tíu létust í skotárás í skóla í Bandaríkjunum
Tuttugu til viðbótar særðust en árásarmaðurinn er látinn. Hann gekk á milli bygginga og hóf skothríð.

Árásargjarnir undir áhrifum teknir á Keflavíkurflugvelli
Litlu munaði að til slagsmála hefði komið um borð í vél Wizz air á dögunum.