Matur

Stjörnukokkur millilendir í Reykjavík

Eva Laufey Hermannsdóttir skrifar
William Zonfa mætir í Hörpu.
William Zonfa mætir í Hörpu.
„Þetta er einstakt tækifæri fyrir Kolabrautina og við munum svo sannarlega nýta þá tækni sem William býr yfir,“ segir Leifur Kolbeinsson matreiðslumaður og framkvæmdastjóri Kolabrautarinnar um komu hins ítalska Michelinkokks William Zonfa.

Næstkomandi föstudagskvöld verður sérstakur hátíðarpastakvöldverður í boði fyrir gesti Kolabrautarinnar og mun William töfra fram snilli sína í ómótstæðilegum pastaréttum.

„Boðið verður upp á sérstakan pastamatseðill sem einungis er í boði þetta kvöld og hvet ég þá sem eru aðdáendur ítalskrar matagerðar að tryggja sér sæti,“ segir Leifur. William Zonfa er þekktur víða um heim og hefur verið áberandi í veitingageiranum á Ítalíu undanfarin ár, hann á meðal annars Michelinstjörnu veitingastaðinn Magione Papale sem staðsettur er í L´aquila, höfuðborg Abruzzo héraðsins.

Sjálfur er William á leiðinni til Bandaríkjanna og mun þar kynna bandaríkjamönnum fyrir töfrum ítalskrar matagerðar í samstarfi við pastaframleiðandann Rustichella d'abruzzo. Svo heppilega vildi til að hann þarf að millilenda á Íslandi og ákvað að nýta tækifærið og setja upp ekta ítalska veislu fyrir íslendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×