Fótbolti

Zlatan líklega með gegn Kára og félögum á morgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic vill mæta uppeldisfélaginu.
Zlatan Ibrahimovic vill mæta uppeldisfélaginu. vísir/getty
Laurent Blanc, þjálfari Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain, er handviss um að Zlatan Ibrahimovic, framherji liðsins, verði með í fyrstu leikviku Meistaradeildarinnar á morgun.

PSG á leik gegn Malmö, liðinu frá borginni þar sem Zlatan fæddist og hóf sinn knattspyrnuferil. Sjálfur vill hann ekkert meira en að spila þennan leik og var hvíldur í jafntefli gegn Bordeaux í deildinni um helgina vegna meiðsla.

„Ég tel að Zlatan eigi góða möguleika á að vera í hópnum. Við sjáum það betur eftir æfinguna,“ sagði Blanc á blaðamannafundi í París í kvöld.

Kári Árnason og félagar í Malmö voru ekkert sérstaklega heppnir þegar dregið var til riðlakeppninnar, en auk PSG eru í riðlinum Real Madrid og úkraínska stórveldið Shakhtar Donetsk.

Þrátt fyrir að Malmö verði litla liðið í leiknum á morgun má ekki gleyma að sænsku meistararnir eru erfiðir heim að sækja og þar voru þeir mótherjum sínum mjög erfiðir í Meistaradeildinni í fyrra.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir Meistaradeildarleik. Það skiptir engu máli hver mótherjinn er, við undirbúum okkur alltaf eins,“ sagði Laurent Blanc.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×