Gunnar Bragi Sveinsson segist eiga von á því að ráðherranefnd sem fer heildstætt yfir flóttamannavandann skili af sér á næstu dögum. „Eða allavega innan ekki svo langs tíma.“ Þetta sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Viðtalið við Gunnar Braga var í beinni útsendingu frá utanríkisráðuneytinu en það má sjá í heild sinni hér að ofan.
Ráðherranefndin fer yfir málin í heild sinni, það er að segja nefndinni var falið að fara yfir verklag milli ráðuneyta varðandi flóttamenn og innflytjendur hér á landi, skoða málefni hælisleitanda og þar að auki hvað það er sem Ísland getur gert á vettvangi erlendis. Ráðherranefndin kom fyrst saman fyrir tæpum tveimur vikum en mikill þrýstingur hefur verið á íslensk stjórnvöld að bregðast við flóttamannavandanum sem fyrst. Dugar þar að nefna síðuna „Kæra Eygló“ þar sem þúsundir Íslendingar sögðust tilbúnir til að bjóða fram heimili sín, herbergi eða hjálpa til með öðrum hætti svo hægt sé að koma fólki í neyð til aðstoðar sem allra fyrst.
Ísland tekur ákvarðanir um eigin málefni
„Evrópusambandið getur ekkert stillt okkur upp við vegg hvað þetta varðar,“ sagði Gunnar Bragi spurður um þá afdráttarlausu afstöðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að hann láti ekki „hóta“ stjórnvöldum hér á landi til að taka við flóttamönnum. En Evrópusambandið vill að EFTA-ríkin taki þátt í áætlun sem miðar að því að jafna hlut ríkjanna í móttöku flóttamanna.
„Það eru ákveðnir samningar í gangi, ákveðnir ferlar í gangi. Við munum taka þessar ákvarðanir á okkar forsendum byggt á því hvað við treystum okkur til og hvað við getum gert,“ sagði Gunnar Bragi.
Þá sagði hann ákveðinn misskiling í „þessu öllu saman.“
„Það er ákveðinn misskilingur í þessu öllu saman sem við munum bara þurfa að skýra, fyrir þjóðinni að sjálfsögðu og í viðræðum okkar við okkar kollega á næstunni. Ég hef meðal annars beðið um fund hjá EFTA-ríkjunum til þess að fara í gegnum ferlana í þessu öllu saman.“
Viðtalið við Gunnar Braga hefst á mínútu 1.40.

