Erlent

Króatar hleypa flóttafólki í gegn á leið sinni norður

Atli Ísleifsson skrifar
Tugir þúsunda flóttamanna höfðu komist inn til Ungverjalands síðustu vikurnar.
Tugir þúsunda flóttamanna höfðu komist inn til Ungverjalands síðustu vikurnar. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Króatíu munu heimila flóttafólki að fara í gegnum landið á leið sinni norður. Flóttafólk leitar nú nýrrar leiða eftir að Ungverjar lokuðu landamærum landsins að Serbíu.

Í frétt BBC kemur fram að um 150 flóttamenn hafi haldið inn í Króatíu frá Serbíu og allir þeir sem fastir eru á landamærum Serbíu að Ungverjalandi hyggi á svipaða ferð.

Króatar segjast reiðubúnir að taka á móti flóttafólkinu ellegar vísa þeim á þá leið sem þeir vilja fara. Flóttafólkið vill flest komast til Þýskalands eða til landa norðar í álfunni.

Ungversk stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi í landinu í gær og gátu því sent herlið að landamærunum að Serbíu til að stöðva alla þá flóttamenn sem reyna að komast inn í landið. Nýjar reglur í landinu heimila jafnframt lögreglu að handtaka alla þá sem reyna að komast ólöglega inn í landið.

Tugir þúsunda flóttamanna höfðu komist inn til Ungverjalands síðustu vikurnar á járnbrautateinum í landamærabænum Röszke en lögregla kom gaddavírsklæddum gámi fyrir á teinununum fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir

Merkel ver stefnu sína

Þjóðverjar búast nú við milljón flóttamönnum á árinu. Ungverjar herða tökin á flóttafólki og ætla hvorki að hleypa þeim inn í landið né út úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×