Svíinn stýrði íslenska karlalandsliðinu í fótbolta, ásamt Heimi Hallgrímssyni, á sitt fyrsta stórmót í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Kasakstan í Laugardalnum.
Sjá einnig: Lars: Ég er ekki hetja
Hann segist ekki hafa viljað opinbera þetta áður þar sem hann var áður yfirmaður fræðslumála og þjálfaramenntunnar hjá KSÍ.
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands var ekki beint á móti ráðningu Lagerbäcks en var að einhverju leyti ósátt við umræðuna um að ráða erlendan þjálfara enda stendur sambandið þétt við bakið á íslenskum þjálfurum.

„Það var kannski viðkvæmt þá að ég sem yfirmaður þjálfaramenntunar vildi ráða erlendan þjálfara í landsliðsþjálfarastarfið svo ég hef nú lítið sagt um þetta en ég tel það í lagi í ljósi árangurs landsliðsins í dag að láta þessa sögu flakka.“
Sigurður Ragnar heldur áfram og segist hafa látið verða af því að hringja í Lars sem hann þekkir vel. Svíinn sagðist vera til í að taka við íslenska liðinu og þá fór allt af stað.
Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, kom sterklega til greina sem þjálfari íslenska liðsins, en á endanum var Lars ráðinn.
„Ég þurfti því að fylgja þessu máli hratt eftir þar sem KSÍ var komið í viðræður við Roy Keane og sannfæra stjórnendur KSÍ um að Lars væri betri kostur. Að lokum tóku Geir og Þórir auðvitað lokaákvörðunina og hún var að sjálfsögðu hárrétt og farsæl og þeim ber að hrósa fyrir það. Engan veginn ætla ég að eigna mér þessar ákvarðanir, þær voru auðvitað Geirs og Þóris og stjórnenda KSÍ,“ segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
