Þrátt fyrir að hafa skorað sigurmark Belgíu gegn Kýpur í undankeppni EM 2016 í gær var landsliðsþjálfarinn Marc Wilmots ekki sáttur með frammistöðu Edens Hazard í leiknum.
Belgar spiluðu ekki sinn besta leik gegn Kýpverjum en náðu að kreista fram 0-1 sigur með marki Hazards á 86. mínútu. Eftir sigurinn er Belgía í 2. sæti B-riðils með 17 stig, einu stigi á eftir toppliði Wales.
„Fyrir ári hefði ég tekið hann út af,“ sagði Wilmots um frammistöðu Hazards í gær.
„En hann er alltaf að þroskast og verða liðinu mikilvægari. Þú getur ekki álasað honum fyrir að reyna hluti en stundum reynir hann of mikið upp á eigin spýtur.
„Hann hefur ekki verið upp á sitt besta með Chelsea á þessu tímabili en hann mun ná sér á strik. Hann réði úrslitum í dag og það var mjög mikilvægt fyrir okkur.“
Hazard hefur skorað þrjú mörk í undankeppninni en í heildina hefur hann gert 10 mörk í 60 landsleikjum.
Belgía mætir Andorra á útivelli og Ísrael á heimavelli í tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum.
Wilmots ekki sáttur með Hazard
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
