Nokkrir leikmenn landsliðsins mættu til Amsterdam í gær og von er á fleirum í dag. Eiður Smári, Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson, sem allir leika í Kína, dvöldu á Íslandi í nokkra daga áður en þeir héldu utan í morgun. Þar mátti einnig finna markvörðinn Gunnleif Vigni Gunnleifsson og liðsfélaga hans hjá Breiðabliki Kristinn Jónsson. Þeir voru í eldlínunni með Blikum í markalausu jafntefli gegn Leikni í Pepsi-deildinni í gærkvöldi.

Sjá einnig: Ólafur Ingi svarar kalli Lars og Heimis
Fyrsta æfing landsliðsins verður á keppnisvellinum, Amsterdam-Arena, klukkan 16:45 að staðartíma en reikna má með ansi rólegri æfingu enda fjölmargir leikmenn að spila um helgina. Höfðu þjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck orð á því á blaðamannafundi í vikunni að í raun yrðu það bara æfingarnar á þriðjudeginum og miðvikudeginum sem myndu standa undir nafni af fyrrnefndum sökum.
Íslenskir blaðamenn, sem eru á annan tug hér ytra, hitta svo sænska þjálfarann og valda leikmenn á hóteli landsliðsins klukkan 18:30 í kvöld.