Erlent

Fleiri fjöldagrafir flóttamanna finnast í Malasíu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá vettvangi í vor.
Frá vettvangi í vor. vísir/epa
Yfirvöld í Malasíu hafa fundið aðra fjöldagröf sem talið er að geymi lík flóttamanna frá nærliggjandi löndum. 24 lík voru í gröfinni en hún fannst í Perlis héraði skammt frá landamærunum að Taílandi. BBC segir frá.

Önnur gröf, sem innihélt 139 flóttamenn, fannst á svipuðum slóðum í maí. Grafir hafa einnig fundist í öðrum löndum í kring svo sem Mjanmar og Taílandi.

Hinir látnu eiga það flestir sameiginlegt að vera Rohingya múslimir frá Mjanmar eða Bangladess. Þeir yfirgefa land sitt í leit að betra lífi. Fjölmargir lenda í klónum á smyglum sem ýmist selja fólkið áfram eða reyna að rukka fjölskyldur fórnarlambanna um lausnargjald. Sé það ekki greitt bíður aðeins jörðin þeirra.

Rohingya múslimir hafa í gegnum tíðina verið hundeltir í heimalandinu. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um og yfir 120.000 þeirra hafi yfirgefið Mjanmar undanfarin þrjú ár. Áður reyndu þeir að komast til Malasíu með landleiðinni í gegnum Taíland en eftir að taílensk stjórnvöld skáru upp herör gegn flóttamönnum hafa þeir í frekari mæli reynt að fara sjóleiðina á flekum og bátum.

Líkin hafa verið send í frekari rannsóknir. Yfirvöld í Malasíu og Taílandi gáfu út í kjölfar fundanna í vor að þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir mansal. Sem komið er virðist það ekki hafa borið nægan árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×