Mjög erfitt er að gera sér grein fyrir ytra útliti bílsins, svo vel er hann falinn með þykkum frauðplasthlífum, en þó sést að ljósin eru í ætt við XC90 og grillið stórt. Undirvagn þessa bíls er sá sami og undir XC90 jeppanum. Búast má við því að sömu vélargerðir verði einnig í boði í þessum bíl, með 400 hestafla tvíorkuaflrás sem þá kröftugustu.
Líklega mun Volvo sýna þennan bíl seinna á þessu ári. Volvo S90 verður smíðaður í Daqing í Kína og þaðan verður bílnum dreift um allan heim. Á það sama við um hann og Volvo S60L bílinn. Í kjölfar „sedan“-útfærslunnar sem hér sést mun Volvo bjóða bílinn í langbaksútfærslu og mun hann heita Volvo V90 wagon.
