Landsliðsþjálfarnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tilkynntu í dag landsliðshóp sinn fyrir leikina á móti Hollandi og Kasakstan í undankeppni EM 2016.
Fjórtán deildir eiga fulltrúa í 23 manna landsliðshópi Íslands að þessu sinni og engin deild á nú fleiri landsliðsmenn en sænska úrvalsdeildin eða alls fjóra.
Ögmundur Kristinsson (Hammarby) og Kári Árnason (Malmö) hafa báðir skipt yfir í sænsk lið frá því að hópurinn kom síðasta saman og þeir Birkir Már Sævarsson (Hammarby) og Rúnar Már Sigurjónsson (Sundsvall) spila líka í sænsku úrvalsdeildinni.
Kínverska og danska úrvalsdeildin eiga síðan báðar þrjá leikmenn í íslenska hópnum. Eiður Smári Guðjohnsen (Shijiazhuang Ever Bright) varð þriðji íslenski landsliðsmaðurinn til að skipta yfir í kínverskt lið á dögunum en þar spila einnig Sölvi Geir Ottesen (Jiangsu Sainty) og Viðar Örn Kjartansson (Jiangsu Sainty).
Þrír leikmenn spila í dönsku úrvalsdeildinni eða þeir Ari Freyr Skúlason (OB), Hallgrímur Jónasson (OB) og Theódór Elmar Bjarnason (AGF).
Íslenska Pepsi-deildin á bara tvo leikmenn í íslenska hópnum en það eru Blikarnir Gunnleifur Gunnleifsson og Kristinn Jónsson.
Aðrar deildir sem eiga leikmenn í íslensku deildinni eru enska úrvalsdeildin, enska b-deildin, franska deildin, rússneska deildin, gríska deildin, ítalska deildin, svissneska deildin, þýska b-deildin, hollenska úrvalsdeildin og norska úrvalsdeildin.
Sænska, kínverska og danska deildin eiga flesta menn í íslenska hópnum

Tengdar fréttir

Þetta eru leikmennirnir sem Lars og Heimir völdu fyrir leikinn gegn Hollandi
Landsliðshópurinn er óbreyttur frá því í 2-1 sigurleiknum gegn Tékkum í júní.

Engar breytingar á landsliðshópnum
Landsliðsþjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tilkynntu í dag hóp sinn fyrir leikina gegn Hollandi og Kasakstan í undankeppni EM. Þeir völdu sama hóp og síðast.

Hollenski hópurinn klár | Robben tekur við fyrirliðabandinu
Danny Blind kynnti í dag fyrsta leikmannahóp sinn sem landsliðsþjálfari Hollands, fyrir leikina gegn Íslandi og Tyrklandi. Arjen Robben, leikmaður Bayern Munchen, tekur við fyrirliðabandinu af Robin Van Persie.