Hlutabréf í Bang & Olufsen hríðféllu í verði í dag í dönsku kauphöllinni eftir að þetta rótgróna danska fyrirtæki tilkynnti um að afkoma fyrirtækisins yrði lakari en búist var við. Hlutabréfin féllu um tæp 14% í dag. Bloomberg greinir frá.
Félagið tilkynnti í dag tap upp á 410 milljón danskar krónur í síðasta ársfjórðungi. Félagið tapaði gríðarlega á því að framleiða og þróa hljómtæki fyrir bíla en sú deild var seld til Harman fyrr á árinu. Þeirri sölu fylgdi kostnaður, 357 milljónum danskar krónur, sem Bang & Olufsen hafði skuldbundið sig til að taka á sig. Í tilkynningu frá félaginu segir þó að þetta hafi verið einskiptiskostnaðar og að stjórnendur þess séu bjartsýnir á framhaldið.
Lykilviðskiptavinir bókstaflega að deyja
Mortem Imsgard, greinandi hjá Sydbank, telur þó að hluthafar í Bang & Olufsen ættu að hafa áhyggjur.
„Vandamál Bang & Olufsen er það að lykilviðskiptavinir félagsins eru bókstaflega að deyja. Hluthafar ættu að fyllast áhyggjum eftir þennan ársfjórðung.“
Bang & Olufsen framleiðir hágæða raftæki á borð við sjónvörp og hljómtæki en hefur átt í erfiðleikum með að fylgja þróuninni á markaðinum. Verð á flatskjám hefur lækkað að undanförnu auk þess sem æ fleiri hlusta á tónlist á ferðinni, frekar en að njóta hennar í stofunni heima.
Að undanförnu hefur fyrirtækið lagt áherslur á vörur fyrir yngri neytendur, m.a. vörur sem styðja streymi á tónlist. Ekki er gert ráð fyrir að félagið greiði hluthöfum sínum arð en félagið greiddi síðast út arð árið 2008.
Um sl. helgi opnaði ný Bang & Olufsen verslun hér á landi í fyrsta sinn frá árinu 2011.
Hlutabréf í Bang & Olufsen hríðfalla í verði

Tengdar fréttir

Bang & Olufsen snýr aftur til landsins
Vörur frá fyrirtækinu seldust í bílförmum fyrir hrun.

Sérfræðingar blása á spár um bólu og annað hrun
Fasteignaverð, fjöldi byggingarkrana, hlutabréfamarkaður, innlend verslun og kókaínsala á uppleið.