Aron Jóhannsson er á leiðinni til Werder Bremen frá AZ Alkmaar. Aron gengst undir læknisskoðun hjá þýska liðinu á morgun samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365 en hann gerir fjögurra ára samning við Bremen.
AZ Alkmaar hafnaði fyrsta tilboði Bremen í Aron en samþykkti tilboð númer tvö sem hljóðaði upp á rúmar fimm milljónir evra.
Aron, sem er 24 ára gamall landsliðsmaður Bandaríkjanna, hefur verið í herbúðum AZ frá 2013 en þangað kom hann frá AGF í Danmörku.
Aron skoraði alls 39 mörk í 71 leik fyrir AZ, þar af 10 mörk í 25 leikjum á síðasta tímabili. Hann kvaddi liðsfélaga sína í dag samkvæmt heimildum íþróttadeildar.
Aron verður fyrsti Íslendingurinn til að leika með Werder Bremen sem endaði í 10. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
