Ættingjar fólks sem fórst með MH370 farþegaflugvél Malaysian flugfélagsins í mars í fyrra eru margir reiðir yfir mismunandi upplýsingum um brak sem fannst á Reunion eyju í síðustu viku.
Sérfræðingar komu saman í Toulouse í Frakklandi í gær til að skoða vænghluta af Boeing 777 þotu sem fannst á eyjunni Reunion á Indlandshafi í síðustu viku. Þar sem aðeins einnar slíkrar flugvélar er saknað í heiminum hefur verið talið mjög líklegt að vænhlutinn sé af flugvélinni í flugi MH370, sem hvarf fyrir 17 mánuðum á leið frá Kuala Lumpur til Peking með 239 manns innanborðs.
Najib Razak forsætisráðherra Malasíu sagði í gær að sérfræðingarnir væru á einu máli um að vænghlutinn væri í MH370 flugvélinni. En skömmu síðar lýstu franskir sérfræðingar því yfir að það væri „mjög líklegt" að hluturinn væri úr flugvélinni.
Flestir farþeganna um borð voru kínverskir. Hópur ættingja þeirra mótmælti fyrir utan skrifstofur Malaysian Air í Peking í dag og gagnrýndi að aukið væri á angist þeirra með misvísandi yfirlýsingum. Þá sögðust margir þeirra ekki trúa útskýringum flugfélagsins og yfirvalda og þeir tryðu því jafnvel að ættingjar þeirra væru enn á lífi. Því væri haldið leyndu fyrir þeim.
Fregnir herma að meira brak en vænghlutinn og ferðataska sem fannst á sama tíma hafi fundist á svipuðum slóðum á Reunion eyju. Meðal annars gluggi og sætispúðar sem einnig hafi verið sendir til skoðunar hjá alþjóðlegum hópi sérfræðinga í Frakklandi.
Þegar rannsókn sérfræðinganna hófst var sagt að staðfesting á því hvort um hlut úr MH370 þotunni væri að ræða væri að vænta fyrir helgi. En talið er að ýmis framleiðslunúmer ættu að geta staðfest það með óyggjandi hætti.
