Reschke lýsti reiði sinni yfir hve „eðlileg“ hatursorðræða á netinu væri orðin og sagði slíkt hafa ýtt undir haturglæpi síðustu misserin, þar á meðal íkveikjur.
„Þar til nýlega voru slík ummæli skrifuð undir dulnefnum, en nú eru þessir hlutir skrifaðir undir raunverulegum nöfnum manna. Svo virðist sem það sé ekki lengur vandræðalegt – þvert á móti þá lýsa margir samstöðu með þessu og menn fá fullt af „lækum“ þegar þeir láta orð falla eins og að „þessi óhreinu meindýr eigi að fá að drukkna í sjónum“.“
Reschke bætti við að „litlir rasistaaumingjar“ væru ánægðir með að „allt í einu líða vel“ eftir alla þá athygli sem þeir fái.
„Ef þú ert ekki á þeirri skoðun að allir flóttamenn séu afætur sem eigi að ráðast gegn, brenna eða drepa með gasi, þá skaltu lýsa þeirri skoðun yfir opinberlega, mótmæla, tjá þig, hafa þetta fólk að háði og spotti.“
Milljónir manna hafa nú séð myndband af ræðu Reschke og hafa flestir þeir sem hafa tjáð sig lýst yfir stuðningi við boðskap hennar þó að margir gagnrýni hana fyrir málflutninginn.