Fjórtán einstaklingar voru í dag, 17. júní, sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Forseta Íslands á Bessastöðum.
Meðal þeirra sem hlutu orðuna í ár eru Egill Ólafsson söngvari og leikari, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri fær einnig orðu en hún var fyrr í dag útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur.
Þá var Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sæmdur, meðal annars fyrir söguritun, en hann skrifaði einmitt bókina Saga af forseta um Ólaf Ragnar Grímsson, Forseta Íslands.
Listinn yfir orðuhafa dagsins er hér fyrir neðan í heild sinni.
1. Aron Björnsson yfirlæknir, Reykjavík, riddarakross fyrir störf á vettvangi skurðlækninga og heilbrigðismála
2. Egill Ólafsson tónlistarmaður, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og leiklistar
3. Einar Jón Ólafsson kaupmaður, Akranesi, riddarakross fyrir framlag í þágu heimabyggðar 4. Guðjón Friðriksson rithöfundur, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskra bókmennta og söguritunar
5. Inga Þórunn Halldórsdóttir fyrrverandi skólastjóri, Kópavogi, riddarakross fyrir störf á vettvangi menntunar, uppeldis og fjölmenningar
6. Jóhann Sigurjónsson sjávarlíffræðingur og forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Reykjavík, riddarakross fyrir forystu á vettvangi fiskirannsókna og hafvísinda
7. Jón Egill Egilsson sendiherra, Reykjavík, stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu
8. Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar leiklistar og kvikmyndagerðar
9. Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Reykjavík, riddarakross fyrir störf í þágu íþróttahreyfingar
10. Margrét Lísa Steingrímsdóttir þroskaþjálfi, Reykjavík, riddarakross fyrir störf í þágu fatlaðra barna og velferðar
11. Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri, Reykjavík, stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu
12. Stefán Reynir Gíslason tónlistarkennari og kórstjóri, Varmahlíð, riddarakross fyrir framlag til tónlistarlífs á landsbyggðinni
13. Steinunn Briem Bjarnadóttir Vasulka listamaður, Bandaríkjunum, riddarakross fyrir frumkvæði og nýsköpun í myndlist
14. Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og fyrrverandi formaður Sóknar, Reykjavík, riddarakross fyrir störf í þágu verkalýðshreyfingar og velferðar
Forstjóri Hafró og söguritari Forseta meðal þeirra sem hlutu fálkaorðuna
Bjarki Ármannsson skrifar
